Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa vakið athygli á því að ný árásarhrina tölvuþrjóta á viðskiptavini fjármálafyrirtækja sé hafin. Er þar um að ræða tölvupóstssendingar þar sem í póstinum er tengill inn á sýndarvefsíðu sem sögð er vera netbanki viðkomandi fjármálafyrirtækis og viðtakendur hvattir til að skrá sig inn,

SFF segir að þessi árás sem nú stendur yfir nái til margra Evrópuríkja og séu íslensk fjármálafyrirtæki í samskiptum við fjármálafyrirtæki í öðrum löndum vegna hennar. Tölvupóstarnir sem nú séu í umferð séu frábrugðnir fyrri póstum þar sem íslenskan sé skárri en áður og auk þess virðist árásirnar frekar beinast gegn fyrirtækjum en einstaklingum.

SFF segir að sennilegast sé að tölvuþrjótarnir sækist frekar eftir því að komast inn í netbanka lögaðila sem hafi heimildir til þess að millifæra á erlenda reikninga. Örn Arnarson, sérfræðingur hjá SFF, segir hins vegar engin merki um að tölvuþrjótunum hafi orðið nokkuð ágengt hingað til. Menn verði samt að vera á varðbergi.

SFF ítrekar að aðildarfélög þess sendi aldrei út póst þar sem farið sé fram á að viðtakandi gefi upp auðkenni sín og brýnir fyrir viðskiptavinum sínum að gæta vel að sér fái þeir óskir um slíkt. Þá sé einnig mikilvægt að viðskiptavinir skrái sig eingöngu inn í netbanka í gegnum vefforsíður viðkomandi fjármálafyrirtækja.