Heimshagkerfið kemst ekki fyrir horn eftir skuldakreppuna í Evrópu og aukinn halla í Bandaríkjunum og Japan fyrr en í fyrsta lagi árið 2018. Við kreppuna bætist hæging kínverska hagkerfisins sem hægir á batanum. Þetta er mat Olivier Blanchard, aðalhagfræðings Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Reuters-fréttastofan hefur eftir Blanchard, að þrátt fyrir þetta megi ekki líta á þessi ár sem glötuð, þ.e.a.s. að ekki megi nota sama orðalag um afleiðingar kreppunar nú sem skall á fyrir fjórum árum og afleiðingar af fjárkreppunni í Japan á tíunda áratug síðustu aldar. Árin eftir kreppuna hafa verið kölluð glataði áratugurinn.

Hann telur ekki hættu á að verðbólga fari úr böndunum í Evrópu þótt efnahagsreikningur seðlabanka þar og reyndar víðar hafi vaxið mikið upp á síðkastið. Þá segir hann Kínverja hafa unnið á eignabólunni þar í landi. Ekki sé útlit fyrir harkalegan samdrátt í efnahagslífinu þótt hagkerfið hafi dregist saman.