Eiður Jónsson, eigandi vélaverkstæðisins á Árteigi á Húsavík, hefur um árabil smíðað túrbínur fyrir smávirkjanir. Sjálfur er hann með eina slíka virkjun sem knýr vélaverkstæði hans. Að vísu hefur verið smávirkjun á Árteigi frá árinu 1950. Það var þó ekki fyrr en árið 2005 sem Eiður fór að selja umframorku inn á landsnetið og í dag selur hann um 1,2 MW inn á netið. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Eiður að nokkur eftirspurn sé eftir túrbínum fyrir smávirkjanir, bæði meðal bænda og sumarbústaðaeigenda úti um allt land en hann framleiðir nú 3-4 túrbínur á ári. Þannig er eru margir bændur í Þingeyjarsýslu búnir að koma sér upp smávirkjun til að knýja bú sín.

Aðspurður segir Eiður að algengasta stærðin á virkjunum séu virkjanir sem framleiði um 20-50 KW. Þar er því um að ræða virkjanir sem aðeins eru ætlaðar til heimabrúks ef þannig má orða það. Til gamans má geta þess að það sem kalla má hefðbundið sveitabýli, þ.e. íbúðarhús með fjárhúsum, fjósi og fleiri útihúsum, þarf ekki nema 12-20 Kw af orku. Þó eru til stærri sveitabýli, t.a.m. stærri kúabú, sem þurfa um eða yfir 50 KW.

Langur undirbúningur

Aðspurður um aðdragandann að því að setja upp virkjun segir Eiður mikilvægt að menn undirbúi uppsetninguna vel.

„Það tekur um 1–2 ár að koma upp smávirkjun með öllu tilheyrandi, en það er mikilvægt að menn geri prófanir og mæli vatnsrennslið í ánni eða læknum í 3-4 ár áður en virkjunin er sett upp,“ segir Eiður. Hann segir að algengasti kostnaðurinn við að koma sér upp smávirkjun sé á bilinu 5-10 milljónir króna þó vissulega geti hann orðið meiri en það fari eftir stærð virkjana og aðstæðum.

Eiður segir að miðað sé við vetrarrennsli þegar orkuframleiðslan sé reiknuð út, því eins og gefur að skilja minnkar vatnsflæðið í flestum ám og lækjum landsins yfir veturinn. Á sumrin eykst flæðið en þá er bæði minni eftirspurn eftir orku auk þess sem orkuverðið lækkar. Því er ekki um annað að ræða en að hleypa vatninu í gegn án þess að virkja það umfram það sem gert er yfir veturinn.