Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun breyttar forsendur fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Í þeim felst að engar hækkanir verði gerðar á gjaldskrám leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu. Verða leikskólagjöld, gjöld fyrir skólavist og gjöld fyrir skólamat óbreytt frá yfirstandandi ári.

Fram kemur í tilkynningu frá bæjarráði Árborgar að þetta er gert til að svara ákalli ASÍ og SA um samstöðu gegn verðbólgunni. Vilji sveitarfélagið leggja lóð sitt á vogarskálarnar og létta undir með barna- og fjölskyldufólki. Þá lækkar fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði þriðja árið í röð og fer álagningarstuðullinn úr 0,3% í 0,275%. Bætt fjárhagsstaða sveitarfélagsins gerir því kleift að lækka með þessu álögur á heimilin. Áfram verður ókeypis fyrir börn og unglinga í sund, bókasöfn og almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins. Þá er beint tilmælum til framkvæmda- og veitustjórnar að farið verði yfir forsendur gjaldskrárhækkana Selfossveitna út frá sömu sjónarmiðum. Allt er þetta liður í að bæta búsetuskilyrði íbúa og stemma stigu við verðbólgu í landinu, að því er segir í tilkynningunni.