Um tíu sveitarfélög skulduðu í lok árs 2010 sem nam um eða yfir 200% af árlegum tekjum sínum og í þeim hópi er að finna nokkur stærstu sveitarfélög landsins, þ.e. Kópavog, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ.

Af stærri sveitarfélögum á landsbyggðinni eru skuldir einnig miklar í Fjarðabyggð, á Fljótdalshéraði og svo í sveitarfélaginu Árborg, sem er áttunda stærsta sveitarfélag landsins með tæplega átta þúsund íbúa en til sveitarfélagsins teljast þéttbýliskjarnarnir Selfoss, Eyrarbakki og Stokkseyri.

Skuldahlutfall fer lækkandi

Í lok árs 2010 námu skuldir Árborgar liðlega 200% af tekjum en þar á bæ virðist þó nokkuð hafa áunnist í skuldamálunum á undanförnum misserum. Í grófum dráttum má segja að skuldabagginn þar sé nokkuð mikill en þó væntanlega viðráðanlegur. Miðað við fjárhagsáætlun Árborgar fyrir árið 2011 og 2012 sem samþykkt var skömmu fyrir áramótin var skuldahlutfall samstæðu Árborgar komið niður í um 168% um áramótin en hlutfallið er svipað fyrir sveitarsjóðinn sjálfan og síðan samstæðuna, þ.e. stofnanir og fyrirtæki í eigu þess.

Í áætlun fyrir þetta ár er síðan gert ráð fyrir að skuldahlutfallið lækki enn frekar og verði komið niður undir 150% í lok ársins en þar er reiknað með að tekjur sveitarfélagsins vaxi nokkuð milli ára eða um 7% eða svo.

Nánar er fjallað um málið í  Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.