Eldey TLH hf. og Íslenskir Fjallaleiðsögumenn ehf. hafa undirritað kaupsamning um kaup á meirihluta hlutafjár í Arcanum ferðaþjónustu ehf. sem stofnað var árið 2003.

Seljendur, Benedikt Bragason og Tómas Birgir Magnússon, eru stofnendur félagsins en þeir munu áfram vera hluthafar í félaginu að viðskiptunum afloknum. Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og er kaupverðið trúnaðarmál. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka var ráðgjafi kaupenda við kaupin segir í fréttatilkynningu frá bankanum.

Jöklagöngur, vélsleða- og fjórhjólaferðir

Starfsemi Arcanum og tengdra félaga ná meðal annars til gönguferða á Sólheimajökul, vélsleðaferða á Mýrdalsjökli, fjórhjólaferða á Sólheimasandi og rekstur kaffihúss á staðnum.

Auk þess ná kaupin til landsins Ytri Sólheima 1A, allrar aðstöðu sem Arcanum er með að Ytri Sólheimum og meirihluta í óskiptu landi Ytri Sólheimatorfu. Landeigendur Ytri Sólheima hafa þegar stofnað með sér félag sem mun sjá um rekstur og uppbyggingu sameignarlandsins og þjónustu við ferðamenn og ferðaþjónustuaðila.

Um Eldey:

Eldey TLH hf. er fjárfestingafélag sem fjárfestir í afþreyingartengdri ferðaþjónustu. Hluthafar Eldeyjar eru fimm lífeyrissjóðir, Íslandsbanki og fleiri fjárfestar. Eldey hefur það að markmiði að fjárfesta í félögum með þekkta rekstrarsögu sem hægt er að bæta og styrkja með samlegð og hagræðingu.

Eldey hefur nú þegar fjárfest í þremur félögum, Norðursiglingu hf. á Húsavík, Gufu ehf. á Laugarvatni og Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum. Framkvæmdastjóri Eldeyjar er Hrönn Greipsdóttir, fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum.

Um Íslenska fjallaleiðsögumenn:

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn ehf. hafa frá fyrsta starfsári sínu sem var árið 1994 verið brautryðjendur í útivistar- og ævintýraferðum. Í dag er boðið upp á bæði skipulagðar dagsferðir og lengri ferðir um landið, allt árið um kring. Jöklagöngur hafa verið ríkur þáttur í starfseminni en ferðaúrval félagsins spannar frá tveggja tíma jöklagöngu upp í leiðangra þvert yfir Grænlandsjökul og á báða pólana.

Þá skipuleggur félagið gönguferðir til Marokkó, Machu Picchu og grunnbúðir Mt. Everest svo dæmi séu tekin. Framkvæmdastjóri Íslenskra Fjallaleiðsögumanna er Elín Sigurveig Sigurðardóttir.