Svissneski bankinn Credit Suisse tapar 4,7 milljörðum dollara á falli vogunarsjóðsins Archegos Capital Management að því er WSJ greinir frá. Framkvæmdastjórar áhættustýringar og fjárfestingabankastarfsemi bankans láta af störfum vegna málsins.

Bankinn hyggst gera hlé á endurkaupum hlutabréfa og lækka arðgreiðslur til hluthafa vegna málsins.

Vogunarsjóðurinn get ekki lagt fram aukin veð þegar hann varð fyrir veðköllum á síðasta föstudegi marsmánaðar sem olli hruni hlutabréfaverðs félaga sem sjóðurinn hafði fjárfest í gegnum flókna afleiðusamninga við fjölda banka líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku . Talið er að Credit Suisse hafi farið verst út úr falli vogunarsjóðsins en hlutabréfaverð bankans hefur fallið um 17% frá því að málið kom upp.

Fall Archegos kemur einungis nokkrum vikum eftir að Credit Suisse frysti 10 milljarða dollara í fjárfestingasjóðum tengdir Greensill Capital, sem varð nýlega gjaldþrota.

Málið þykir allt hið vandræðalegasta fyrir Credit Suisse, og Thomas Gottstein, sem tók við sem forstjóri félagsins af Tidjane Thiam á síðasta ári eftir annað hneykslismál . Thiam sagði starfi sínu lausu eftir að í ljós kom að einn af yfirmönnum Credit Suisse hafði ráðið einkaspæjara til að fylgjast með öðrum hátt settum starfsmönnum bankans.

Gottstein hefur heitið því að taka til í rekstrinum eftir nokkurn fjölda hneykslismála á undanförnum árum. Bankinn segist nú þurfa að fara ítarlega yfir fall Greensill og Archegos og gera viðeigandi breytingar á starfsemi sinni svo sambærileg mál endurtaki sig ekki.

Áður en málið kom upp lá fyrir að Urs Rohner, stjórnarformaður bankans undanfarinn áratug, myndi láta af störfum í lok mánaðarins.