*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 23. apríl 2019 10:58

Arctic Adventures fær að kaupa félögin

Sameining Arctic Adventure og Into the Glacier hefur verið samþykkt af Samkeppniseftirlitinu.

Ritstjórn
Íshellirinn hjá Into the Glacier hefur verið vinsæll áningastaður ferðamanna.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Arctic Adentures hf. á eignarhlutum í ferðaþjónustufyrirtækjunum Into the glacier, Skútusiglingar, Óbyggðasetur, Welcome Entertainment og Raufarhóll.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun árs samdi Arctic Adventures hf. við Icelandic Tourism Fund um sameiningu félagsins við Into the Glacier ehf., og kaup á hlutum í hinum félögunum fjórum.

Félögin eru staðsett víða um land, en félögin eru rekstraraðilar að Óbyggðasetrinu í Fljótsdal, Raufarhólshelli, Borea Adventures á Ísafirði og leiksýningunni „Icelandic Sagas - The greatest hits“ sem sýnd er í Hörpu.

Við kaupin eignast sjóðurinn og Sigurður Skarphéðinsson framkvæmdastjóri Into the Glacier hlutabréf í Arctic Adventures. Félögin verða áfram rekin sjálfstætt en í nánum samstarfi við Arctic Adventures.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins segir að eftir rannsókn stofnunarinnar sé það mat hennar að samkeppnin hindri ekki virka samkeppni og leiði ekki til myndunar markaðsráðandi stöðu, eða að samkeppni á markaði raskist. Því séu ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans.