Ferðaþjónustufyrirtækin Arctic Adventures og Mountaineers of Iceland hafa bæði sótt um leyfi til gera ísgöng í Langjökli, austan megin, sem tilheyrir sveitarfélaginu Bláskógarbyggð, en landamerki þess liggja eftir jöklinum endilöngum.

Athygli vekur að Arctic Adventures náði í byrjun árs samkomulagi við Into the Glacier, sem er með um 800 metra ísgöng inn í jökulinn vestan megin, um sameiningu, en eignarhluturinn í þeim var metinn á nærri 1,5 milljarða í bókum stærsta eigandans, Icelandic Tourism Fund. Í byrjun sumars fréttist svo af því að enn um sinn yrði ekki af sameiningunni enda hafi aðsókn í göngin dregist mikið saman eða um 60% á fyrsta ársfjórðungi.

Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP Banka.
Styrmir Þór Bragason, forstjóri MP Banka.
© BIG (VB MYND/BIG)
Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures, segir viðræður um sameiningu félaganna ekki endanlega úr sögunni. „Þær hafa verið settar á frost yfir sumarið en við ætlum að setjast niður með þeim þegar tölur sumarsins liggja fyrir og meta hvort við eigum einhvern flöt á að endurnýja viðræðurnar. Þeir eru með allt öðruvísi vöru en við erum að hugsa þarna austan megin, það er fyrst og fremst snjósleðavara með viðkomu í íshelli, meðan þeirra ferðir eru fyrst og fremst íshellavara. Þetta er tvöföld upplifun hjá okkur þar sem snjósleðinn er svolítið aðalmálið. Þetta er algerlega óháð því hver framvinda mögulegrar sameiningar verði,“ segir Styrmir Þór.

„Þetta verður miklu minni íshellir, eða allt að 100 metra langur. Það er búið að heimila einum af samkeppnisaðila okkar, Mountaineers of Iceland, að byrja að vinna að gerð íshellis þannig að við erum að sækja um sams konar heimild og þeim var úthlutað fyrr á árinu. Það er ekkert annað en það. Hugmyndin er að gera eins líkt náttúrulegum íshelli og hægt er því þeir sem við erum að heimsækja þarna í dag eru eingöngu aðgengilegir á veturna, því hellarnir flæða á sumrin. Þegar allt er að bráðna og vatnið fossar út úr þeim eru þeir hvorki aðgengilegir né öruggir, en við höfum áhuga á að bjóða sambærilega vöru allt árið, og velja þannig staðsetningu að ekki muni flæða vatn um hann.“

Samdráttur styttir ferðir

Herbert Hauksson, stjórnarformaður Mountaineers of Iceland, segir ástæðuna fyrir umsókn félagsins um gerð manngerða íshellisins að hluta til vera sá samdráttur sem hafi verið í ferðaþjónustunni.

„Við höfum verið í samstarfi við Into the Glacier og verið að fara með hópa þangað líka, en það er bara misjafnt hvort kúnninn velur, að fara að vestanverðu og skoða sveitirnar í Borgarfirðinum eða hvort hann vilji fara að austanverðu í Gullfoss og Geysis hringinn. En farþegarnir í tengiflugi, sem hafa viðdvöl á Íslandi, hafa oft bara þennan eina dag og þá er gott að geta boðið þeim að skoða íshelli í þeirri sömu ferð, því jöklarnir eru það sem allir vilja sjá, sérstaklega núna í ár þegar fréttir hafa verið áberandi um að þeir séu að bráðna ansi mikið,“ segir Herbert.

„Eftir að við fengum leyfi hjá sveitarfélaginu erum við byrjaðir að gera tilraunaholur, en þetta lítur allt mjög vel út og gæti orðið tilbúið eftir tvo til þrjá mánuði. Náttúrulegu hellarnir sem við höfum verið að heimsækja bráðnuðu allir niður í sumar og eru ekki lengur skoðunarhæfir, og höfum við ekki fundið neinn nýjan náttúrulegan fyrir komandi vetur, þannig að við verðum að treysta á þessi einu göng sem við höfum huga á að setja þarna upp.“

Bæði Styrmir Þór hjá Arctic Adventure og Herbert hjá Mountaineers of Iceland segja kostnaðinn við gerð þeirra náttúrulega útlítandi manngerðu hella sem félögin hyggjast gera austanmegin Langjökuls, allt annan og minni en þær 300 til 500 milljónir króna sem kostaði að gera Into the Glacier göngin vestanmegin.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um fyrstu stýrivaxtaákvörðun seðlabanka Ásgeirs Jónssonar
  • Samdráttur á bílamarkaði er krufinn til mergjar
  • Farið er í saumana á uppgjöri Sýnar og fleiri félaga í kauphöllinni
  • Umfjöllun um fyrstu fjargeðheilbrigðisþjónustu landsins
  • Skráning Kaldalóns á First North markað Kauphallarinnar
  • Fasteignafjárfestirinn Eggert Dagbjartsson er í ítarlegu viðtali
  • Sjálfbærnitengd lán til Landsvirkjunar skoðuð til hlítar
  • Framkvæmdastjóri nýrrar sameinaðrar ráðgjafa- og auglýsingastofu ræðir húmor og samskipti
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um villigötur frægðarfólksins um Amazon elda
  • Óðinn skrifar um álagningu og ólöglegt athæfi skattayfirvalda