Davíð Másson, stjórnarformaður Arctic Adventures , segir að nú þegar að ferðaþjónustan standi á tímamótum sé horft björtum augum til framtíðar og þeirrar uppbyggingar sem framundan sé. Stefnt sé að því að skrá félagið á markað og mun Gréta María Grétarsdóttir leiða það verkefni. Í dag eru tvö ferðaþjónustufyrirtæki skráð á markað. Icelandair Group er skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar og Play á First North. Gréta María tekur við forstjórastöðunni af Styrmi Þór Bragasyni og mun hefja störf í byrjun nýs árs.

„Við erum ánægð að fá Grétu Maríu til að móta og leiða verkefnin framundan , þar á meðal fyrirhugaða skráningu félagsins á markað," segir Davíð. „Við höfum verið leiðandi í ævintýra- og afþreyingarferðum og ætlum að vera þátttakandi í því að móta íslenska ferðaþjónustu til framtíðar.

Arctic Adventures er ævintýra- og afþreyingarfyrirtæki sem býður upp á fjölbreyttar ferðir í náttúru Íslands. Við leggjum áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda þannig að komandi kynslóðir geti notið og haft aðgang að þeirri einstöku auðlind sem íslensk náttúra er."