Arctic Adventures hf. og framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund (ITF) sem rekinn er af Landsbréfum hafa gengið frá samkomulagi um sameinungu Arctic Adventures og Into the Glacier ehf auk þess sem Arctic kaupir hlut ITF í fjórum ferðaþjónustufyrirtækjum til viðbótar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Fyrirtækin fjögur sem umræðir eru Óbyggðasetur Íslands, Raufarhóll ehf, Skútusiglingar á Ísafirði sem starfar undir vörumerkinu Borea Adventures og Welcome Entertainment ehf, sem stendur að leiksýningunni „Icelandic Sagas - The Greatest Hits“ í Hörpu. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í sumar voru áðurnefndar eignir auk Into the Glacier metnar á um 2 milljarða króna í bókum ITF um síðustu áramót.

Kaupverð félaganna mun greiðast með hlutum í Arctic Adventures og mun ITF því verða stórhluthafi í sameinuðu félagi eftir viðskiptin. Það var fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem veitti ráðgjöf vegna viðskiptanna og mat verðmæti fyrirtækjanna. Félögin munu áfram verða rekin sjálfstætt en í nánu samstarfi við Arctic Adventures.

Óhætt er að segja að viðskiptin eigi sér töluverðan aðdraganda en tæpt ár er frá því að upprunalega var greint frá kaupum Arctic á áðurnefndum eignum. Í apríl var greint frá því að Samkeppniseftirlitið hefði heimilað sameininguna en í júlí var svo greint frá því að hætt hefði verið við. Þar sem SKE hafði áður veitt samþykki fyrir kaupunum er ekkert því til fyrirstöðu að þau gangi í gegn.

Í tilkynningunni er haft eftir Helga Júlíussyni, framkvæmdastjóra ITF að sameiningin sé fagnaðarefni fyrir Íslenska ferðaþjónustu.

„Við getum nýtt krafta félaganna enn betur, náum fram umtalsverðri hagræðingu og aukum slagkraftinn til muna þegar kemur að sölu og markaðssetningu. Arctic Adventures hefur mjög sterka stöðu á markaði fyrir afþreyingartengda ferðaþjónustu.  Sú staða styrkist enn frekar í kjölfar þessara viðskipta og getur fyrirtækið nú boðið upp á fyrsta flokks afþreyingu í öllum landshlutum.“

Þá segir Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures að stefnt sé að skráningu sameinaðs félags á hlutabréfamarkað innan tveggja ára.

„Samkeppnisstaðan styrkist og við höfum meira að bjóða á alþjóðlega ferðamarkaðnum. Það skiptir mjög miklu að geta boðið ferðafólki fjölbreytta afþreyingu. Við sjáum enn frekari tækifæri til vaxtar á næstu misserum og stefnum ótrauð að skráningu á hlutabréfamarkað innan tveggja ára.“