Arctic Fish Holding, móðurfélag Arctic Fish ehf. á Íslandi, er metið á ríflega 2.550 milljónir norskra króna eða tæplega 39 milljarða króna, í nýju verðmati fjárfestingarbankans Pareto Securities AS. Viðmiðunarverð Pareto er 80 norskar krónur á hlut, sem er ríflega 34,5% hærra en hlutabréfaverð félagsins sem stendur nú í 59,5 norskum krónum.

Arctic Fish Holding var skráð í Euronext kauphöllina í Ósló þann 19. febrúar síðastliðinn. Laxeldisfyrirtækið safnaði 350 milljónum norskra króna með útgáfu nýs hlutafé í útboðinu, en það jafngildir um 5,3 milljarða króna miðað við núverandi gengi krónunnar.

Sjá einnig: Umframeftirspurn í útboði Arctic Fish

Pareto spáir að framleiðsla Arctic Fish, sem er með fimm eldisstaðsetningar í þremur fjörðum á Vestfjörðum, muni aukast úr 12 tonnum árið 2021 í 24 tonn árið 2025. Einnig er gert ráð fyrir bættri framlegð vegna hækkandi laxverðs og lækkandi kostnaðar innan fyrirtækisins. Nánar tiltekið er spáð því að EBIT (hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og skatta) fyrir hvert kíló af laxi verði 12 norskar krónur í ár hjá Arctic Fish en verði orðinn 24 norskar krónur árið 2025.

Fjárfestingarbankinn spáir því að vöxtur laxeldis fari dvínandi í Noregi, Síle og Bretlandi sökum aukinna kvaða í reglugerðum og vegna líffræðilegra vandamála. Þá sé Ísland einna fárra staða í heiminum þar sem mikill vöxtur í hefðbundnu laxeldi sé enn mögulegur. Með aukinni framleiðslu hérlendis megi búast við betri innviðum sem leiði til arðbærari iðnaðar.