Þjóðarsjóður Singapúr, GIC, mun fjárfesta 240 milljónum dala, eða um 30,4 milljarða króna, í Arctic Green Energy og verður hluthafi í félaginu. Í tilkynningu Arctic Green Energy segir að markmið sé að keyra áfram upptöku á kolefnislausri hitaveitu í Evrópu og Asíu.

„Arctic Green Energy er orðinn lykilleikmaður í sjálfbærnivæðingu í orkumálum og afkolefnisvæðingu byggingageirans, nú síðast í gegnum þróun á stærsta jarðvarmafyrirtæki heims, Sinopec Green Energy í Kína, sem er í eigu Arctic Green og Sinopec,“ segir í tilkynningu félagsins.

Sjá einnig: Tryggja sér 25 milljarða fjármögnun

Þá kemur fram að nánast helmingur af allri orkunotkun í heiminum sé notuð í upphitun og kælingu á byggingum og í iðnaði. Þetta er nú orðið helsta vandamál borga í umskiptum sínum í  átt að hreinni og kolefnishlutlausum heimi. Sérfræðiþekking Arctic Green Energy er sögð liggja í tæknilegri getu til að nýta jarðvarma af mismunandi hitastigi sem hryggjarstykkið í upphitun og orkuframleiðslu.

Haukur Harðarson, stjórnarformaður og stofnandi Arctic Green Energy:

„Samstarfið og fjármögnunin frá GIC mun gera Arcic Green Energy kleift að stækka verulega við sig og hjálpa okkur að fara af stað með ný verkefni. Það er núna raunverulegar líkur á að við getum tekið niður reykháfa og umbreytt borgum í heilsusamleg umhverfi. Við hlökkum til að hefja þetta samstarf með GIC til að gera þessa sýn að veruleika.“