Ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hefur sett stefnuna á að byggja upp starfsemi í Klettafjöllum í Kanada. „Við höfum verið með það á teikniborðinu að færa viðskiptalíkan okkar á Íslandi yfir til Kanada,“ segir Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures.

Styrmir bendir á að Arctic Adventures keypti fremur smátt kanadískt fyrirtæki árið 2018, undir nafninu Great Canadian Adventure Company en það rekur bókunarsíðuna Adventure.com. „Við höfum verið að byggja síðuna upp frá þeim tíma. Salan í Kanada hefur aukist töluvert,“ segir Styrmir.

Kórónuveirufaraldurinn hafi hins vegar haft gífurleg áhrif á ferðaþjónustuna í Kanada líkt og hér á landi. Verkefnið nú sé að komast í gegnum faraldurinn. „Það er svolítið eins og að keyra á vegg að lenda í þessari veiru. Ég held að um leið og fólk telur sig nógu öruggt til að ferðast fari ferðaþjónustan af stað á ný. Ferðaþörfin og ferðalöngunin hjá fólki fer ekki.“ Með því að auka umsvif sín í Kanada geti félagið komist hjá því að vera með öll eggin í sömu körfunni á Íslandi.

„Við fáum gríðarlegan fjölda af ánægðum viðskiptavinum. En við höfum fundið fyrir því að þegar þeir eru búnir að fara til Íslands höfum við kannski ekki mikið annað að selja þeim, þó margir komi vissulega aftur.“Klettafjöllin séu mjög vinsælt ferðamannassvæði.

Í smábænum Banff í Klettafjöllunum sem telur innan við 10 þúsund íbúa og þjóðgarðinum þar í kring heimsæki til að mynda hátt í 4,5 milljónir ferðamanna á ári.„Við leituðum að svæðum með sambærilega afþreyingu og uppgang í ferðamennsku og á Íslandi. Ferðamennskan þar snýst að miklu leyti um ævintýraferðamennsku á borð við jöklaferðir, snjósleðaferðir og flúðasiglingar. Nálægðin við stóra alþjóðlega flugvelli og auðvelt aðgengi að svæðinu skiptir líka mjög miklu máli,“ bendir Styrmir á.

„Í Kanada er mjög mikið af litlum ferðaskrifstofum og ferðaaðilum. Netsala þar er mjög skammt á veg komin miðað við það sem við þekkjum á Íslandi.“

Fyrsta verkefnið sé þó að komast í gegnum kórónuveirufaraldurinn. Tvö af dótturfélögum Arctic Adventures, Straumhvarf og Adventure Hotels, fóru í greiðsluskjól í lok júní. Styrmir segir þó að sumarið hafi farið fram úr væntingum. „Batinn hefur verið hraðari og meiri en maður þorði að vona.“ Þróun kórónuveirunnar á næstunni muni skipta mestu máli upp á framhaldið, bæði hér á landi og erlendis. „Við sjáum til að mynda bakslag á Spáni. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli hvernig haldið er á málum gagnvart veirunni. Það sem ræður að lokum för er hvað margir treysta sér til að ferðast.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Forstjóri Icelandair segir ekki fyrirhugað að óska eftir frekari heimild til hækkunar á hlutafé en fyrirhugað er.
  • Árið 2019 var besta ár ORF Líftækni frá upphafi, rætt er við Liv Bergþórsdóttur um reksturinn.
  • Viðtal við Eld Ólafsson, framkvæmdastjóra AEX Gold, um nýafstaðið hlutafjárútboð fyrirtækisins.
  • Skeljungur lagði Basko til 300 milljónir í vor. Jákvæður viðsnúningur varð á rekstri Basko á fyrsta fjórðungi.
  • Ítarleg úttekt á vexti og vaxtaráformum Storytel.
  • Lúxusíbúðir við Austurhöfn fara senn í sölu.
  • Rætt er við forsprakka Planitor sem vinna að því að greiða úr frumskógi skipulagsmála sveitarfélaganna.
  • Sigurjón Andrésson bílaunnandi hefur verið ráðinn markaðsstjóri BL eftir 22 ára starfsferil hjá Sjóvá.
  • Týr er á sínum stað líkt og Huginn & Muninn.