Arctic Trucks í Noregi hyggst breyta Toyota Hilux bílum í rafbíla. Um er að ræða verkstæði Arctic Trucks í Drammen í Noregi en verkefnið verður unnið í samvinnu við Tembo 4x4 í Hollandi sem hefur lengi breytt Toyota bílum. Verða breyttu bílarnir, líkt og þeir sem Tembo 4x4 hefur verið að breyta, einna helst notaðir í alls konar iðnaðarstörfum, námum eða í þjóðgörðum.

Frank Daams hjá Tembo segir ástæðuna fyrir samstarfinu einfaldlega þá að félagið ráði ekki við eftirspurnina á markaðnum og því geti framleiðslugetan hjá Arctic Trucs í Noregi komið sér vel að því er fram kemur í norskum fjölmiðlum .

Arctic Trucks í Noregi flutti nýlega í nýtt og stærra húsnæði, sem hannað er sérstaklega fyrir þeirra þarfir, og er haft eftir Erni Thomsen framkvæmdastjóra fyrirtækisins í Noregi að öll leyfi hafi verið tryggð. „Við hlökkum til framtíðarinnar,“ segir Örn.

Rafhlöðurnar sem settar eru í bílana verða annað hvort 230 volta eða 400 volta, en hleðslugetan er 7,2 kw. Arctic Trucks í Noregi hefur unnið töluvert fyrir bæði lögregluna og herinn í Noregi.