Þjónustufyrirtækið Arctic Trucks mun á næstu mánuðum taka þátt í framleiðslu á sjónvarpsþáttunum Extreme World Races í samvinnu við BBC.

Sex bílar, sem breyttir hafa verið af Arctic Trucks, verða notaðir við gerð þáttanna og aðkoma Arctic Trucks að verkefninu verður með þeim hætti að félagið útvegar bílstjóra og viðgerðarmenn. Þess utan mun Arctic Trucks hafa milligöngu um að útvega íslenska bráðaliða á svæðið.

Nýlega fóru fram æfingar hér á landi fyrir tökumenn frá BBC og aðra sem eiga aðkomu að þáttunum. Í ár eru 100 ár frá því að fyrst var gengið á Suðurskautið og því mikið um að vera á svæðinu. Bílar frá Arctic Trucks hafa reynst vel í notkun á svæðinu og fara bæði mun hraðar yfir en venjulegir snjóbílar auk þess sem þeir eyða mun minna eldsneyti.

Fyrir utan verkefnið sem unnið er fyrir BBC mun Arctic Trucks eiga aðkomu að þremur stórum verkefnum næstu mánuði. Um er að ræða vísindaleiðangra þar sem Arctic Trucks útvegar bæði bíla og bílstjóra. Meðal annars er unnið að því þessa dagana að kortleggja svæðið á Suðurskautinu og notast er við bíla frá Arctic Trucks til að flytja bæði búnað og vísindamenn.

Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks, segir í samtali við Viðskiptablaðið að um 5-6 manns frá fyrirtækinu verði á Suðurskautinu yfir jól og áramót en um 8-10 manns verði þar að jafnaði næstu mánuði. Nú eru 13 bílar frá Arctic Trucks á svæðinu en að sögn Emils mun þeim fjölga nokkuð á næsta ári.

Emil Grímsson
Emil Grímsson
© BIG (VB MYND/BIG)

Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks.