Erlendir fjárfestar hafa óskað eftir því að fá að skoða gögn er varðar sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í Hitaveitu Suðurnesja. Anna Skúladóttir, fjármálastjóri OR, staðfesti að fundir hefðu átt sér stað með áhugasömum fjárfestum en hluturinn hefur verið til sölu síðan stjórn félagsins ákvað að setja hann í sölumeðferð um síðustu áramót. Ráðgjafafyrirtækið Arctica Finance hefur verið falið að vinna sölugögn vegna sölunnar.

OR á 15% hlut í HS sem nú hefur verið skipt upp í tvö félög, HS Orka og HS Veitur. Það er orkuhluturinn sem er til sölu og að sögn Önnu engar hömlur á að sölu hlutarins. Beðið er eftir að ársreikningur HS liggi fyrir áður en frekari ákvörðun verður tekin.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins eru tvo af þeim álframleiðslufyrirtækjum sem starfa hér á landi, Century Aluminium og Rio Tinto Alcan, meðal þeirra sem hafa óskað eftir að skoða gögn. Lækkun á gengi krónunnar hefur ýtt á eftir áhuga erlendu aðilanna. Á sínum tíma sýndi Geysir Green áhuga á að kaupa hlutinn. Það sem vinnur gegn sölu til erlendra aðila er ótti við að beitt verði þjóðnýtingarákvæðum eins og sást í kringum neyðarlögin.