Móðurfélag Arctica Finance hf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í H.F. Verðbréfum hf. Kaupin eru háð fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins. Starfsmönnum fyrirtækjanna tveggja voru kynnt kaupin á fundum, sem hófust núna klukkan 16.

Gangi kaupin eftir stendur til að samþætta starfsemi félaganna undir merkjum Arctica Finance. Verðmæti viðskiptanna er trúnaðarmál, en greitt er fyrir kaupin með reiðufé.

Í tilkynningu er haft eftir Stefáni Þór Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Arctica Finance, að á þeim tæpu 7 árum sem liðin séu frá stofnun Arctica Finance hafi félagið náð traustri stöðu á íslenskum fjármálamarkaði. Með kaupunum á H.F. Verðbréfum séu tækifæri til að styrkja Arctica enn frekar, einkum á sviði verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar.

Halldór Friðrik Þorsteinsson, stofnandi og stjórnarformaður H.F. Verðbréfa segir að með sölunni ljúki 12 ára starfsemi félagsins á verðbréfamarkaði. Hún hafi hafist með litlu skrefi í desember 2003 og hafi allar götur síðan verið viðburðarrík, krefjandi og gjöful. Starfsemi Arctica Finance og H.F. Verðbréfa fellur vel saman að sögn Halldórs og hagræðingin sem af hlýst umtalsverð.

Heildareignir H.F. Verðbréfa námu í árslok 2014 um 273 milljónum króna og var bókfært virði eigin fjár um 223 milljónir króna. Hjá H.F. Verðbréfum starfa 11 manns. Framkvæmdastjóri er Daði Kristjánsson. Heildareignir Arctica Finance voru í árslok 2014 um 700 milljónir króna og var bókfært virði eigin fjár um 540 milljónir króna. Starfsmenn Arctica Finance eru 18 talsins. Framkvæmdastjóri er Stefán Þór Bjarnason.