Kvikmyndin Spectre, 24. kvikmyndin um njósnarann James Bond, var frumsýnd í kvikmyndahúsum víða um heim um helgina.

Tekjur kvikmyndarinnar í Bretlandi á opnunarhelginni námu samtals 41,3 milljónum breskra punda eða um 8,2 milljörðum íslenskra króna. Samkvæmt umfjöllun Box Office Mojo um sýningarhelgina sló hún sýningarmet í Bretlandi sem áður hafði verið slegið af síðustu Bond-myndinni, Skyfall.

Á heimsvísu þénaði hún í kringum 80 milljónir Bandaríkjadollara eða um 10 milljarða íslenskra króna og hefur því átt ágætis byrjun í kvikmyndahúsum. Hún verður tekin til sýninga í íslenskum kvikmyndahúsum í kvöld.

Skyfall tekjuhæsta myndin

Kvikmyndaserían um njósnara hans hátignar er fjórða arðbærasta kvikmyndasería sögunnar samkvæmt úttekt Forbes um málið. Í fyrsta sæti eru kvikmyndirnar um Marvel ofurhetjuheiminn, í öðru sæti Harry Potter-serían og í því þriðja Star Wars.

Heildartekjur þeirra 23 Bond-mynda sem gefnar hafa verið út frá árinu 1962, leiðréttar fyrir verðlag, eru tæpir 15 milljarðar Bandaríkjadollara.

Skyfall er tekjuhæsta Bond-myndin en hún kom út árið 2012 og námu tekjur hennar á heimsvísu 1,1 milljarði Bandaríkjadollara eða um 148 milljörðum króna. Þar á eftir kemur kvikmyndin Thunderball með tekjur upp á 1,072 milljarða dollara á verðlagi dagsins í dag og því næst Goldfinger með 988 milljónir dollara í tekjur á raunvirði.

Tekjulægsta Bond-myndin er hins vegar License to Kill með Timothy Dalton í aðalhlutverki en hún þénaði aðeins 302 milljónir dollara á verðlagi dagsins í dag þegar hún kom út árið 1989. Meðaltekjur þeirra kvikmynda sem komið hafa út um njósnarann breska nema um 835 milljónum Bandaríkjadollara.

Framleiðslukostnaður hækkar

Samkvæmt nýlegri úttekt Economist um kvikmyndaseríuna vinsælu hafa tekjur kvikmyndanna aukist jafnt og þétt í gegnum árin en samhliða því hefur framleiðslukostnaður þeirra hækkað töluvert.

Fyrstu þrjár Bond-myndirnar sem komu út á sjötta áratugnum þénuðu allar í kringum þrjátíu sinnum meira en þær kostuðu. Tekjur síðustu þriggja Bond-myndanna hafa allar verið í kringum fjórum sinnum meiri en sem nemur framleiðslukostnaði þeirra.