Ræstinga- og fasteignaumsjónarfyrirtækið Dagar tvöfaldaði hagnað milli ára í 140 milljónir á síðasta ári og skilaði með því 20% arðsemi eigin fjár.

Tekjur námu 5 milljörðum og jukust um 10% en rekstrargjöld 4,8 milljörðum og hækkuðu um sama hlutfall. Bróðurpartur gjaldanna fóru í launakostnað eða 87%, tæpir 4,2 milljarðar. Greidd laun námu 3,4 milljörðum og jukust um 12% og ársverkum fjölgaði um 34 í 532.

Heildareignir námu tæpum 2,3 milljörðum í árslok og drógust saman um 115 milljónir, og eigið fé féll um 120 niður í 589 milljónir. Eiginfjárhlutfall fór því úr 30% í 26.

Í skýrslu stjórnar kemur fram að tekjur af sótthreinsiverkefnum hafi dregist saman á síðasta ári, en tekjur af ferðaþjónustutengdum verkefnum aukist á móti. Þá hafi veikindatíðni starfsfólks aukist verulega á seinni hluta ársins, að hluta vegna Covid, með tilheyrandi hækkun launakostnaðar.

Hugsanglegt er sagt að lagt verði til á sérstökum hluthafafundi að greiddar verði 140 milljónir króna í arð, með fyrirvara um rekstrarniðurstöðu fyrri hluta þessa árs og lánaskilmála Íslandsbanka.