Arðgreiðsla Apple sem tilkynnt var um í gær mun kosta fyrirtækið 45 milljarða dala á næstu þremur árum. Arðgreiðslan hljóðar upp á að hluthafar fá greidda 2,65 dali fyrir hvern hlut sem þeir eiga í Apple ársfjórðungslega næstu þrjú árin. Það gera 10,6 dali  fyrir hvern hlut, jafnvirði 1.343 íslenskra króna. Fyrsta arðgreiðslan skilar sér til hluthafa í júlí.

Eitt hlutabréf í Apple kostar í dag 601 dal, jafnvirði rétt rúmra 76 þúsund íslenskra króna. Það hefur hækkað tæp 82% síðasta árið, þar af um rúm 45% frá áramótum. Fyrir áratug kostaði eitt hlutabréf örlítið meira en hluthafar fá í arð fyrir eitt hlutabréf í þeirra eigu, um 12,5 dali. Gengið hefur síðan þá hækkað um 4.700%

Ákvörðun stjórnenda Apple að greiða hluthöfum arð er nokkuð stórt skref í bandarískum fjármálageira. Google er nú eina fyrirtækið sem skráð er á hlutabréfamarkað vestanhafs yfir 100 milljörðum dala að markaðsverðmæti sem ekki greiðir hluthöfum arð.

Jobs, Steven
Jobs, Steven
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Bloomberg-fréttaveitan veltir því upp í dag hvernig Steve Jobs, öðrum stofnanda Apple og forstjóra þess um árabil sem lést í fyrra, hafi hugnast ákvörðunin að greiða hluthöfum arð. Fyrirtækið gerði það síðast fyrir 17 árum eða árið 1995. Síðan þá hefur mikið breyst í rekstri Apple og iPad og iPhone og aðrir nettengjanlegir tæknihlutir sem gera notendum kleift að skipta við netverslun Apple reynst gullnáma. Gríðarlegur auður hefur safnast upp í hirslum Apple síðan fyrsta græjan af þessu tagi kom á markað og á Apple nú tæpa 98 milljarða dala af lausu fé. Sem dæmi um það hafa 16 milljarðar dala bæst í sjóðina og er gert ráð fyrir að í heildina muni vörusalan skila Apple 75 milljörðum dala á árinu öllu.

Tim Cook, forstjóri Apple, sagði á símafundi í gær hugmyndina að breikka hluthafahóp Apple enda vonist menn til að sjóðir sem fjárfesti í fyrirtækjum sem greiði arð taki nú að kaupa hlutabréf fyrirtækisins.