*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 30. maí 2020 16:02

Arðgreiðslubann í vegi fjármagns

Í sameiginlegri umsögn SI, SFS, SVÞ, SAF og SA eru gerðar nokkrar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á hlutabótaleiðinni.

Jóhann Óli Eiðsson

Í sameiginlegri umsögn SI, SFS, SVÞ, SAF og SA eru gerðar nokkrar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á hlutabótaleiðinni. Meðal þess sem sett er út á er að frumvarpið miði við tekjusamdrátt sem orðið hefur eftir 1. mars í stað 1. apríl en þá hafi áhrif veirufaraldursins fyrst fundist af fullum þunga.

Einnig er sett út á það að fyrirtæki sem nýti leiðina geti ekki greitt arð næstu þrjú ár. Mörg þeirra leiti nú að nýju fjármagni og muni arðgreiðslubannið reynast erfiður ljár í þúfu. Bannið stangist einnig á við ákvæði hlutafélagalaga um að eigendur tíundar af hlutafé geti krafist þess að tilteknum arði sé úthlutað.

Bann við kaupum á eigin bréfum geti einnig stangast á við samninga við starfsfólk sem á í félagi. Komi til starfsloka geti fyrirtæki borið að kaupa starfsmanninn út samkvæmt samningi sem standa verði við. Telja þau rétt að velferðarnefnd þingsins taki tillit til þessa við afgreiðslu frumvarpsins.