Staða ríkissjóðs hefur batnað mikið frá því sem áður var. Greiningardeild Arion banka segir að haldi sem horfir geti sakapast forsendur fyrir því að hækka tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir yfirstandandi ár og eykur það líkur á myndarlegum afgangi í ríkisfjármálum á þessu ári.

Greiningardeildin segir í Markaðspunktum sínum í dag að þyngst í bættri stöðu ríkissjóðs vegi arðgreiðslur umfram forsendur fjárlaga. Það má einkum rekja til næstum 20 milljarða króna arðgreiðslu frá Landsbankanum sem greiddur var út í vor.

Greiningardeild Arion banka segir:

„Ljóst [er] að greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrsta ársfjórðung gefur vísbendingu um jákvæða þróun [...]. Þróunin er í raun framhald af þeim jákvæðu tölum sem komu fram við greiðsluuppgjörið fyrir árið í fyrra en þar var afkoman tæpum 4 mö.kr. betri en fjár- og fjáraukalög gerðu ráð fyrir. Einnig mælti fjármála- og efnahagsráðherra í vikunni fyrir frumvarpi til laga um opinber fjármál með áherslu á strangar fjármálareglur um afkomu- og skuldaviðmið. Um er að ræða reglur sem lögbinda að heildarafkoma ríkissjóðs yfir fimm ára tímabil verði ávallt jákvæð og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Sömuleiðis er sett fram skuldaþak sem tryggir að skuldir ríkisins, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum, fari ekki yfir 45% af landsframleiðslu hverju sinni. Gert er ráð fyrir metnaðarfullri niðurgreiðslu skulda eða sem nemur um 5% af landsframleiðslu á ári þegar skuldir eru yfir skuldaþakinu.

Það er því líklegt, ef merki eru um aukið svigrúm í ríkisfjármálum á annað borð, að aðhaldi verði beitt við gerð fjáraukalaga fyrir þetta ár og áhersla lögð á niðurgreiðslu á skuldum ríkisins. Einnig getur myndast tækifæri til að leggja fram metnaðarfyllri áætlun í ríkisfjármálum en sú sem gefin var út með fjárlagafrumvarpinu 2014, en þar var einungis gert ráð fyrir 1-3 ma.kr. jákvæðum heildarjöfnuði á árunum 2014-2016. Að öllum líkindum verður á næstunni lögð fram þingsályktunartillaga um ríkisfjármálaáætlun til næstu 4 ára og kemur þá í ljós hvort undirliggjandi þróun í ríkisfjármálum gefi tilefni til að skila meiri afgangi næstu árin en gert hefur verið ráð fyrir, jafnvel sem nemur á annan tug ma.kr. Í ljósi þess að framleiðsluslakinn getur farið hverfandi úr hagkerfinu í lok þessa árs skiptir það enn meira máli en ella að hið opinbera sýni aðhald og ýti undir þjóðhagslegan sparnað.“