Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Fréttablaðsins , þar sem Hildur Björnsdóttir, stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að félagið slái dýr lán gagngert í þeim tilgangi að greiða arð í hendur stjórnmálamanna.

Í fréttinni kemur fram að Orkuveitan tók nærri þriggja milljarða króna lán hjá Íslandsbanka í lok árs 2016 en lánið hafi átt þátt í því að veltufjárhlutfall félagsins hækkaði þannig að skilyrðum fyrir arðgreiðslu var fullnægt. Einnig kemur fram að fyrirtækið hafi greitt 750 milljóna króna arð til eigenda sinna í fyrra og hyggist greiða 1,2 milljarð króna í arð á þessu ári. Reykjavíkurborg á tæpan 94% hlut í Orkuveitunni.

Brynhildur segir meðal annars í yfirlýsingu sinni að í eigendastefnu Orkuveitunnar sé kveðið á um að rekstur fyrirtækisins skuli skila eigendum arði. Arðgreiðslur séu því eðlilegur þáttur útgjalda Orkuveitunnar.

Yfirlýsinguna í heild má sjá hér að neðan:

Skýr eigendastefna Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 2012 átti mikinn þátt í að það tókst að reisa fjárhag fyrirtækisins við þannig að nú er hann traustur. Þess hafa viðskiptavinir notið með lækkun á ýmsum gjaldskrám síðustu misseri og einnig eigendur sem fengu greiddan arð af rekstrinum árið 2017. Það var í fyrsta skipti um árabil.

Í tilefni ummæla stjórnarmanns í fjölmiðlum í dag bendi ég á að í eigendastefnunni, sem samþykkt var einróma í öllum þremur sveitarstjórnum eigenda fyrirtækisins, er kveðið á um að reksturinn skuli skila eigendum arði.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ber að starfa í samræmi við þennan eindregna vilja allra eigendanna þriggja - Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar - og hefur sett rekstrinum og einstökum þáttum hans arðsemismarkmið. Þau taka meðal annars mið af þeim mörkum sem sett eru sérleyfisrekstri í lögum og reglugerðum og metnaði til að samkeppnisrekstur á borð við raforkusölu til stórnotenda sé ábatasamur. Arður er þó ekki greiddur út nema ljóst sé að fjárhagsstaðan leyfi og því hafa arðgreiðsluskilyrði, sex talsins, einnig verið sett. Þau eru almenningi aðgengileg á vefnum.

Arðgreiðslur eru því eðlilegur þáttur útgjalda Orkuveitu Reykjavíkur og er gert ráð fyrir þeim í fjárhagsspám OR, sem eru öllum aðgengilegar. Fjármögnun Orkuveitu Reykjavíkur, þar á meðal lánsfjármögnun, tekur mið af fyrirsjáanlegum tekjum og gjöldum og fjárhagslegum markmiðum í rekstrinum. Sú lántaka, sem sætir gagnrýni í fjölmiðlum í dag, var í fullu samræmi við allt ofangreint.