Arðgreiðsluaðferð sem stunduð hefur verið hjá fjölda eignarhaldsfélaga undanfarin ár er að líkindum ólögleg samkvæmt nýjum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Dómurinn féll íslenska ríkinu í vil þann 19. október síðastliðinn gegn félaginu International Seafood Holdings SARL í Lúxemborg, sem var móðurfélag Iceland Seafood International (ISI).

Dómurinn byggir á úrskurði ríkisskattstjóra þar sem ISI var talið óheimilt að úthluta arði á grundvelli svokallaðrar hlutdeildaraðferðar. „Það er algerlega ný túlkun hjá ríkisskattstjóra og kom öllum endurskoðendum í opna skjöldu,“ segir Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður International Seafood Holdings.Endurskoðendur sem Viðskiptablaðið hefur rætt við hafa sagt umrædda arðgreiðsluaðferð hafa verið viðtekna venju sem framkvæmd hafi verið í góðri trú  í áraraðir.

Því sé líklegt sé að háar fjárhæðir hafi verið greiddar út með aðferðinni. Samkvæmt dómnum var ISI óheimilt að greiða International Seafood Holdings arð þar sem arðgreiðslan byggði á hagnaði í dótturfélögum ISI sem ekki hafði verið greiddur upp til móðurfélags í formi arðgreiðslna. „Þetta kann að hafa slæm áhrif á mörg eignarhaldsfélög sem  hafa beitt þessari  aðferð á  undanförnum árum,“ segir Guðmundur. Skattayfirvöld hafi heimild til að taka upp skattskil sex ár aftur í tímann. Málinu hefur verið áfrýjað til Landsréttar. Í svari ríkisskattstjóra við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að fordæmisgildi málsins muni byggja á dómi Landsréttar.

Arðgreiðslur frestist um ár

Guðmundur bendir á að ef túlkun ríkisskattstjóra og héraðsdóms standi í Landsrétti þá muni það hafa í för með sér að arðgreiðslur sem byggi á hagnaði dótturfélaga samstæðna kunni að frestast um ár. Fyrst þurfi að greiða arð úr dótturfélagi í móðurfélag og ári síðar þurfi móðurfélagið að taka ákvörðun um arðgreiðslu byggt á hagnaði fyrra árs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .