Stjórn Vinnslustöðvarinnar samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi að greiða hluthöfum 830 milljónir króna í arð vegna afkomunnar í fyrra. Til samanburðar fengu hluthafar Vinnslustöðvarinnar 470 milljónir króna í arð í fyrra og jafngildir þetta því að arðgreiðslurnar hækka um 80% á milli ára.

Sama dag og stjórnin ákvað að greiða hluthöfum arðinn tilkynnti hún að 30 manna áhöfn skipsins Gandí verði sagt upp og skipinu lagt að loknum makrílveiðum. Það verður sett á söluskrá. Ellefu manns í landvinnslu verður sömuleiðis sagt upp. Endurskoða á reksturinn til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif veiðigjalda á rekstur Vinnslustöðvarinnar, líkt og greint var frá í gær.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, betur þekktur sem Binni í Vinnslustöðvinni, segir í samtali við Eyjafréttir arðgreiðsluna jafngilda 5% af markaðsvirði Vinnslustöðvarinnar og 13% af eigin fé fyrirtækisins. Hann sagði í samtali við vb.is í gær á móti fyrirhuguð veiðigjöld verða útgerðinni þung í skauti nema gripið verði til hagræðingar. Hann taldi gjöldin sem rætt sé um miðað við þau þorskígildi sem fyrirtækið ráði yfir á þessu fiskveiði ári geta numið á bilinu 800 til 900 milljónum króna. Þegar lögin um veiðigjald verði komin að fullu til framkvæmda gæti álagningin numið á milli 1,3 til 1,5 milljörðum króna að óbreyttu.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins í gær kom fram að stjórn Vinnslustöðvarinnar hafi í gegnum tíðina greitt hluthöfum fyrirtækisins um og yfir helming hagnaðar fyrri árs í arð.

Tveir stærstu hluthafar Vinnslustöðvarinnar eru Stilla útgerð og Félagið Stilla útgerð á 25,79% hlut. Félagið er í eigu feðganna Kristjáns Guðmundssonar og útgerðamannsins Guðmundar Kristjánsson, löngum kenndur við Brim. Félagið Seil á svo 24,8%. Félagið er í eigu Haraldar Gíslasonar og Kristínar Gísladóttur, varastjórnarmanni hjá Vinnslustöðinni.

Í umfjölluninni var rifjað upp að báðir þessir hluthafar Vinnslustöðvarinnar skuldi á þriðja milljarð króna. Skuldirnar eru tilkomnar vegna kaupa á Vinnslustöðinni.