*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 15. mars 2016 15:32

Arðgreiðslur hluti af atvinnulífinu

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir að umræða um atvinnulífið væri mun neikvæðari á Íslandi en í nágrannalöndum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir að arðgreiðslur séu hluti af heilbrigðu atvinnulífi og að umræða um atvinnulífið væri mun neikvæðari á Íslandi en í nágrannalöndunum. Hann segir einnig að vel rökstudd gagnrýni eigi alltaf rétt á sér en almennt sé of mikil neikvæðni í garð fyrirtækja og of lítill skilningur á mikilvægi þeirra.

Hann segir að umræða um atvinnulífið eftir hrunið hafi verið yfirgengilega neikvæð og að stjórnmál hafi t.d. verið afar neikvæð í garð atvinnulífsins.

Góðir tímar séu framundan en raunveruleg hætta sé á ofhitnun í hagkerfinu

„Það eru mörg hættumerki. Við sjáum að innlend verðbólga er meiri en heildarverðbólgan sem við erum að mæla þar sem lækkandi olíuverð og styrking krónunnar heldur henni niðri. Innlendir þjónustuliðir hækkuðu um 4-5% á síðasta ári þannig að það kraumar hér verðbólga undir niðri. Við þurfum að gæta okkar.“

Hann sagði þó einnig að jákvæð teikn væru á lofti.

„Þegar við skoðum heildarmyndina er hagkerfið okkar mun heilbrigðara en fyrir áratug síðan.“ Hagvöxtur byggist á auknum útflutningstekjum og það er mikill uppgangur í ferðaþjónustu og í útflutningi í iðnaði. Rekstur fyrirtækjanna er einnig heilbrigðari en fyrir áratug síðan og agaðri. „Það er miklu meiri innistæða fyrir því sem er verið að gera.“

Þorsteinn segir að það sé kannski ekki að undra að umræðan um atvinnulífið hafi verið neikvæð eftir það sem gekk á á árunum 2007-2009 og sagði að hann héldi að atvinnulífið ætti eftir að vinna úr þessu vantrausti. Hann sagði þó að kröfur um góða stjórnarhætti í atvinnulífinu og aukið gagnsæi hafi bætt atvinnulífið. Þó sé hægt að gera betur.

Hann gagnrýnir tryggingarfélögin fyrir að hafa ekki upplýst um forsendur arðgreiðslna sem þau ákváðu nýverið en lækkuðu eftir harða gagnrýni almennings og fjölmiðla. Í raun hafi breytingar á evrópskum reglum falið í sér takörkun á getu fyrirtækjanna til að greiða arð vegna aukinna krafna um hækkun á eigin fé en ekki öfugt.

Stikkorð: SA