Sjóvá og stjórn VÍS hafa gefið frá sér yfirlýsingar vegna þeirrar umræðu um arðgreiðslur tryggingafélaganna sem hefur átt sér stað undanfarna viku. Stjórn VÍS segir að núverandi arðgreiðslutillaga sé í samræmi við stefnu félagsins og Sjóvá segir að arðgreiðslan sé komin til vegna rekstrarniðurstöðu en ekki til breyttra reikningsskila.

Í samræmi við stefnu

Stjórn VÍS bendir á að afkomutilkynning hafi verið send til Kauphallarinnar í ágúst sl. þar sem kom fram að stjórn félagsins hafði sett samstæðunni markmið um áhættuvilja sem tæki mið af núverandi starfsemi auk neðri vikmarka. Samkvæmt markmiðunum skyldu gjaldþolshlutfall samstæðunar samkvæmt Sovency II vera um 1,5 með neðri vikmörkum í 1,35. Fram kom í tilkynningunni að arðgreiðslur tæku mið af því.

Núverandi arðgreiðslutillögur væru í samræmi við þá stefnu, en stjórnin hafi þó ákveðið að ganga skemur og verður gjaldþolshlutfallið 1,55 eftir arðgreiðslu, en það er 55% hærra hlutfall er Solvency II kveður á um.

Stjórnin bendir á að ekki hafi verið greiddur arður á árunum 2009 til 2013 þrátt fyrir hagnað. Arðgreiðslutillaga stjórnar nú sé í samræmi við ofangreinda stefnu en hluthafafundur fari þó með æðsta vald í málefnum félagsins. Samkvæmt lögum um hlutafélög skal stjórn félags leggja fram tillögu um arðgreiðslu fyrir hluthafa á aðalfundi. Hluthafafundi er óheimilt að gera tillögu um greiðslu hærri arðs en stjórn leggur til, en hefur heimild til þess að ákvarða lægri arðgreiðslu. Stjórnin segir síðan að hluthafafundur sé réttur vettvangur til að ræða málefni félagsins.

VÍS segir einnig að afkoma af ökutækjatryggingum hafi um árabil verið óviðunandi, líkt og FME bendi á í tilkynningu á vef sínum fyrir stuttu. Þar benti FME á mikilvægi þess að grunnrekstur tryggingafélaganna sé ekki rekinn með tapi.

Arðgreiðsla komin til vegna fjárfestingarstarfsemi

Sjóvá bendir á að arðgreiðslugeta sé komin til vegna góðrar afkomu fjárfestinga. Hún byggi á rekstrarniðurstöðu síðasta árs en ekki á breyttum reikningsskilum eða breytingu á tjónaskuld eins og haldið hefur verið fram. Ekki hafi verið greiddur arður á árunum 2009 til 2013 heldur var hagnaði eingöngu varið í uppbyggingu og eflingu félagsins segir í tilkynningunni.

Tillagan um arðgreiðslur sé í fullu samræmi við núgildandi lög um vátryggingarstarfsemi eins og FME hefur staðfest. Fjárhagsstaða Sjóvá verður ennþá jafn sterk eftir greiðslu arðs og hún var í ársbyrjun 2015. Góð afkoma af fjárfestingarstarfsemi Sjóvár í fyrra er grundvöllur fyrir tillögu um greiðslu arðs.

Sjóvá segir einnig að félagið endurgreiði viðskiptavinum sem eru í Stofni á hverju ári. Það eru greiðslur til um 20 þúsund viðskiptavina sem hafa ekki lent í tjóni á árinu. Frá árinu 2009 nema þessar greiðslur rúmlega 3 milljörðum króna segir í yfirlýsingunni.