*

þriðjudagur, 21. september 2021
Erlent 17. júní 2020 17:32

Arðgreiðslur tvöfalt hærri en hagnaður

Bandarískir bankar greiða 32,7 milljarða dollara í arð fyrir fyrsta ársfjórðung þrátt fyrir einungis 18,5 milljarða hagnað.

Ritstjórn
Jelena McWilliams, formaður FDIC.
epa

Tryggingarsjóður innstæðueigenda í Bandaríkjunum, FDIC, segist vera að vakta arðgreiðslustefnur bandarískra banka eftir að þeir tilkynntu arðgreiðslur sem eru tæplega tvöfalt hærri en hagnaður þeirra á fyrsta fjórðungi ársins. Financial Times segir frá

Lánaveitendur og innlánsstofnanir í Bandaríkjunum, sem eru um 5.100 talsins, tilkynntu um 32,7 milljarða dollara arðgreiðslur á fyrsta ársfjórðungi en hagnaður þeirra nam 18,5 milljarða dollara á sama tímabili. Hagnaðurinn dróst saman um 70% á ársfjórðungnum frá fyrra ári, samkvæmt tilkynningu FDIC.

Afskriftir útlána voru um 52,7 milljarðar dollara, eða 7,2 billjónir íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi en þær voru um 13,9 milljarðar dollara í fyrra. Útistandandi lán jukust um 8%, sem er mesta aukning á einu ári síðan 2008, og hafa eiginfjárhlutföll bankanna því lækkað.  

Arðgreiðslur bandarískra banka í miðjum heimsfaraldri hefur varkið sterk viðbrögð erlendis, sérstaklega eftir að Seðlabanki Evrópu, ECB, bannaði bönkum á evrusvæðinu tímabundið að greiða arð eða kaupa eigin bréf. 

Seðlabanki Bandaríkjanna tekur ákvörðun þann 25. júní næstkomandi um hvort banna eigi bandarískum bönkum tímabundið að greiða út arð. James Gorman, forstjóri Morgan Stanley, sagði í síðustu viku að það væri engin ástæða fyrir því að stöðva arðgreiðslur banka í þeim tilvikum sem hagnaður er umfram arðgreiðslur. 

Vandræðabönkum fjölgar

Jelena McWilliams, formaður FDIC, sagði í gær að að bankageirinn hafi verið styrkur fyrir hagkerfið í faraldrinum. „Fjármagn banka og eiginfjárstaða er enn sterk, gæði eigna góð og fjöldi ‚vandræðabanka‘ er nálægt sögulegu lágmarki.“

Svokallaðir vandræðabankar eru stofnanir í hættu á gjaldþroti án inngripa. Fjöldi slíkra banka jókst úr 51 í 54 á fjórðungnum en það er fyrsta hækkunin á þessum mælikvarða síðan árið 2011 þegar fjöldi vandræðabanka náði hámarki í 888 talsins, samkvæmt tilkynningu FDIC. 

FDIC er stofnunin er ábyrg fyrir því að verja sparifjáreigendur fari svo að bankar verði gjaldþroti. Stofunin hefur heimildir til að gera bankastofnanir upptækar. 

McWilliams varaði við erfiðum áskorunum til skamms og meðallangs tíma, meðal annars vegna sögulega lágra stýrivaxta í Bandaríkjunum og heimsfaraldursins. 

Stikkorð: FDIC Morgan Stanley James Gorman