Stærstu útgerðir landsins, HB Grandi, Samherji og Síldarvinslan, greiddu í fyrra meira en tvöfalt hærri upphæð í arð til eigenda sinna en í veiðigjöld. Þannig greiddi HB Grandi, sem er kvótahæsta útgerð landsins, eigendum sínum 2,7 milljarða króna í arð fyrir síðasta ár, en greiddi 1,3 milljarða í veiðigjöld.

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir í samtali við Fréttablaðið í dag, að þegar arðgreiðslurnar eru skoðaðar verði að horfa á arðsemi eiginfjár og bera saman við aðrar atvinnugreinar. Hann bendir á að þeir sem ákveði að fjárfesta í sjávarútvegi geti allt eins fjárfest í öðrum hlutabréfum eða skuldabréfum, en sumir kjósi að vera í útgerðinni og fá ávöxtun á eigið fé.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður nefndarinnar, segir hins vegar að stóru fyrirtækin sýni það með arðgreiðslum sínum að þau geti borið meiri veiðigjöld en núverandi ríkisstjórn hafi ákveðið.