Mikil umræða spratt upp í byrjun ársins þegar tryggingafélögin TM, VÍS og Sjóvá birtu tillögur að arðgreiðslum fyrir aðalfund. Til stóð að Sjóvá myndi greiða 3,1 milljarð króna í arð (472% af hagnaði), VÍS 5 milljarða (241% af hagnaði) og TM í 1,5 milljarða (53% af hagnaði). Samanlagt voru þetta 9,6 milljarðar króna.

Tillögurnar voru harðlega gagnrýndar og í kjölfarið ákváðu stjórnir VÍS og Sjóvá að lækka arðgreiðslutillögur sínar. Sjóvá lækkaði niður í 657 milljónir króna og VÍS í 2.067 milljónir en TM hélt sínum arðgreiðslum óbreyttum.

Ekki mikil langtímaáhrif

Miklar hreyfingar urðu á markaðnum í kjölfarið en að sögn Sigurðar Arnar Karlssonar hjá IFS Greiningu mun umtalið líklega ekki hafa áhrif til lengri tíma. „Ég held að þeir sem hafi ætlað að færa sig séu búnir að því. Það má velta því fyrir sér hvort þetta hafi áhrif á arðgreiðsluákvarðanir á næsta ári,“ segir hann.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, tekur undir það. „Það er alveg ljóst að þetta olli töluverðu róti á markaðnum. Gagnrýnin beindist samt ekki mikið að okkur, við vorum með frekar hófstilltar tillögur við hliðina á VÍS og Sjóvá. Þetta kom samt róti á viðskiptamannahópinn. Það fóru einhverjir en það komu einhverjir á móti. Nettóniðurstaðan er því góð,“ segir hann.

Hafði jákvæð áhrif á Vörð

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, segir að rótið hafi haft jákvæð áhrif á afkomu tryggingafélagsins. „Á meðan mest gekk hér á var mikið álag hérna og mikið hringt í okkur,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .