*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 16. janúar 2017 12:02

Arðgreiðslurnar voru hóflegar

Forstjóri TM, segir viðbrögð stjórnmálamanna við arðgreiðslum tryggingafélaganna hafa verið mikil vonbrigði og telur umræðuna byggða á misskilningi.

Ásdís Auðunsdóttir
Haraldur Guðjónsson

TM var eina tryggingafélagið sem ákvað á sínum tíma að halda sínu striki og greiða út arð árið 2016 í samræmi við upphaflegar áætlanir þrátt fyrir umtalsverð mótmæli í þjóðfélaginu. VÍS og Sjóvá ákváðu hins vegar að draga umtalsvert úr sínum arðgreiðslum. Frostjóri TM, Sigurður Viðarsson segir umræðuna alla byggða á misskilningi og segir viðbrögð stjórnmálamanna við henni hafa verið gríðarleg vonbrigði.

Erfitt að breyta ánægju viðskiptavina í peninga þegar samkeppnin snýst aðallega um verð

Það er óhætt að fullyrða að það er frekar hörð samkeppni á íslenska tryggingamarkaðnum. Hvernig blasir þetta samkeppnisumhverfi við þér?

„Það er náttúrlega ekkert leyndarmál að það er langmest keppt í verðum og það er búið að rýmka ennþá meira fyrir samkeppninni þegar fólki var gefinn kostur á því að segja upp samningum og hætta frá og með næstu mánaðamótum. Samkeppnin er mikil en hún hefur alltaf verið það. Þannig að það er svo sem ekkert nýtt. Það eru fjögur skaðatryggingafélög og það eru að verða jafn mörg líftryggingarfélög á innanlandsmarkaði. Við höfum verið í erlendri samkeppni í líftryggingunum en nánast engri erlendri samkeppni í skaðatryggingunum. Við leggjum mikla áherslu á þjónustu en það er mjög erfitt að breyta þeirri ánægju viðskiptavina í peninga, þegar samkeppnin snýst aðallega um verð.“

Arðgreiðsluumræða hafði ekki áhrif

Olli þessi breyting á fyrirkomulaginu tryggingafyrirtækjunum erfiðleikum?

„Nei, þetta var í sjálfu sér ekki erfið breyting og hún var búin að eiga sér stað í líftryggingunum hérna áður. Þetta nýja fyrirkomulag gefur fólki ákveðinn sveigjanleika. Við finnum það í erfiðum tjónamálum þar sem við höfnum bótum að þá hefur fólk bara hætt strax og þarf ekki að bíða í marga mánuði. Það er mín skoðun að þegar það er orðið ljóst að kúnninn vill fara þá er best að hann fái bara að fara. Svo virkar þetta auðvitað í báðar áttir, við erum að fá viðskiptavini úr öðrum félögum, Nettó niðurstaða er kannski ekki mikil breyting en þetta eykur auðvitað álagið á tímum eins og í fyrra þegar arðgreiðsluumræðan fór af stað. Þá fengum við ótrúlega margar uppsagnir því sumir viðskiptavinir voru reiðir, sem okkur fannst mjög ósanngjarnt því þetta beindist nú aðallega að VÍS og Sjóvá. Arðgreiðslur hjá okkur voru talsvert lægri og í raun bara helmingurinn af hagnaðinum á meðan hin fyrirtækin voru með margfaldan hagnað undir. Engu að síður slettist það samt yfir á okkur og fólk byrjaði að tala um arðgreiðslur tryggingafélaganna og vildi hætta og fara. Það kom þannig talsvert rót á markaðinn en niðurstaðan varð samt sú að það fóru einhverjir frá okkur en það komu jafnframt margir til okkar á móti.“

Umræðan byggð á misskilningi

Nú ákváðu Sjóvá og VÍS að draga úr arðgreiðslum sínum í kjölfar háværra mótmæla á meðan TM hélt sig við fyrri áætlanir, hvernig lítur þetta við þér?

„Okkar afstaða er sú að við erum með ákveðna arðgreiðslustefnu sem við kynntum áður en félagið fór á markað þar sem við stefnum að því að borga að minnsta kosti helminginn af hagnaðinum á hverju ári til hluthafa. Þetta var það sem var lagt upp með, við erum arðgreiðslufélag. Ef við högnumst vel þá verður arðgreiðslan hærri og við höldum okkur við þá stefnu sem við höfum sett okkur. Við þurfum að hafa ákveðið magn af eigið fé til að geta stundað þennan rekstur, það er bara lögbundið.

Við höfum sett okkur markmið að vera með 50% meira heldur en við þurfum samkvæmt lögum. Allt eigið fé sem myndast umfram það borgum við út til hluthafa, þetta er ekkert flókið. Það þarf líka að líta til þess hverjir eiga tryggingafélögin. Lífeyrissjóðirnir eiga um það bil helminginn af öllum tryggingafélögunum, þetta eru sjóðir sem eru að geyma peningana fyrir okkur, fólkið í landinu. Margir eru brjálaðir yfir því að verið sé að borga peninga út úr þessum fyrirtækjum sem þurfa ekki á meiri peningum að halda. Ef ég myndi segja „ég er hættur að greiða út arð því það fer illa í suma“, þá er ég á sama tíma að segja við hluthafa okkar að ég sé betur til þess fallinn að fjárfesta þessum peningum en þeir og ég er ekki tilbúinn til þess. Menn verða auðvitað að standa í lappirnar, við erum með stefnu og hún þarf að geta gengið til lengri tíma. Menn kaupa sér hlutafé í félaginu af því að þeir vita að við munum haga okkur með ákveðnum hætti og borga ákveðinn arð og mér finnst bara ekki ganga að víkja frá því vegna háværrar umræðu sem er illa rökstudd.“

Telur þú umræðuna þannig að einhverju leyti byggða á misskilningi?

„Já, ég held það.“

Viðbrögð stjórnmálamanna gríðarleg vonbrigði

Það var mismunandi hvernig stjórnmálamenn brugðust við þessu máli. Margir tóku undir óánægjuraddirnar, aðrir þögðu en enginn stóð með tryggingafélögunum í þessu máli. Kom það þér á óvart?

„Ég verð að viðurkenna að þetta voru gríðarleg vonbrigði. Það virtist ekki nokkur stjórnmálamaður vera tilbúinn til að standa með okkur í þessari umræðu, jafnvel þótt þeir skildu okkar hlið vel. Þess í stað ákváðu margir að grípa þessa umræðu til að skapa sér vinsældir. Við gerðum eflaust sjálf mistök, bæði samtökin okkar og tryggingafélögin, þegar við svöruðum þessu ekki betur. Við hjá TM mátum það þannig að það væri ekki í okkar verkahring að svara fyrir önnur félög enda fannst okkur arðgreiðslan okkar vera hófleg og gagnrýnin í upphafi því ekki beinast að okkur. En svo varð þetta bara gagnrýni á tryggingafélögin sem heild. Eftir á að hyggja hefðum við átt að taka umræðuna ásamt hinum félögunum og útskýra málið eins og ég hef verið að reyna að gera hér.

En það voru mikil vonbrigði að flokkar sem hafa staðið með atvinnulífinu í gegnum tíðina hafi ekki verið tilbúnir til þess á þessum tímapunkti, þrátt fyrir það að þeir væri ef til vill ósammála umræðunni. Það voru gríðarleg vonbrigði.“

Nánar fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð. 

Stikkorð: Sigurður Viðarsson