Árdís Ármannsdóttir  hefur verið ráðin til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Skema. Hún tekur við af Þórunni Jónsdóttur sem mun flytjast til starfstöðva móðurfyrirtækis Skema, Rekode Education í Washington fylki í Bandaríkjunum.

Skema var stofnað af Rakel Sölvadóttur árið 2011 og er leiðandi í kennslu og ráðgjöf í notkun tækni og forritunar á grunn- og framhaldsskólastigi á Íslandi.

Árdís mun stýra rekstri og áframhaldandi uppbyggingu og vexti Skema á Íslandi, en í dag starfa 6 manns auk um 20 leiðbeinenda og aðstoðarkennara hjá félaginu. Hún mun einnig leiða stækkun Skema og reKode á Evrópumarkað.

Árdís er með mastersgráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum í Árósum og er með áralangu reynslu í markaðssetningu og stefnumótun auk víðtækrar þekkingar á rekstrarumhverfi nýsköpunar- og samfélagsfrumkvöðlafyrirtækja.

Hún kemur til Skema frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands þar sem hún hefur verið markaðsstjóri um árabil. Hún mun hefja störf þann 1. maí næstkomandi.