Nokkurs misskilnings hefur gætt í umræðu um 3,5% arðsemi Kárahnjúkavirkjunar á fyrstu starfsárum hennar. Skoða þarf arðsemi af virkjunum í samhengi yfir langan líftíma þeirra, að mati Sigurðar Harðarsonar, ráðgjafa og meðeiganda Centra fyrirtækjaráðgjafar.

Hann vitnar til þess að Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hafi sagt á haustfundi fyrirtækisins í fyrra að meðallánsvextir vegna virkjunarinnar nemi 3,2% á þeim fjórum árum sem hún hefur starfað, eða talsvert lægra en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og að arðsemi eiginfjár hafi numið 3,5% á tímabilinu. Raforkuverð hefði því þurft að vera umtalsvert hærra til að ná fram fullnægjandi arðsemi af Kárahnjúkavirkjun.

Sigurður skrifar grein um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Hann skrifar að mikið vatn muni renna til sjávar áður en unnst verði að gera upp arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Þá segir hann að þróist álverð á næstu árum í samræmi við verðlagningu framvirkra samninga á markaði þann 15. nóvember, þegar Hörður flutti erindi sitt, megi gera ráð fyrir að arðsemi eiginfjár virkjunarinnar verði með ágætum á næstu árum og áratugum.

Grein Sigurðar má lesa í heild sinni hér