Arðsemi af orkusölu Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja hér til stóriðju hefur verið um 5% allt frá 1990 og þar til nú. Þetta er talsvert undir arðsemi annarra atvinnugreina og umtalsvert minni en arðsemi af sambærilegri starfsemi í nágrannalöndunum.

Þetta kemur fram í skýrslu um arðsemi orkusölu til stóriðju, sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið mikilvægt að geta rætt um þessa hluti á grundvelli traustra upplýsinga til að byggja á þegar horft er til framtíðar í orkusölumálum.

„Meginniðurstöður skýrslunnar styður og styrkir þá mynd sem hefur verið að dragast upp, bæði í fyrri skýrslum og því sem Landsvirkjun hefur birt á fundum sínum, að við þurfum að huga betur að þessum arðsemisþætti og því sem að kemur til almennings í gegnum auðlindina og eignarhaldið á orkufyrirtækjunum. Auðvitað geta á þessu verið einhverjar skýringar sem við verðum að hluta til að horfast í augu við, við erum jú eyja í Atlantshafinu og orkumarkaðir lokaðir og margt fleira sem spilar inn í.“ segir Steingrímur.