Íslensku bankarnir starfa í dag í skjóli hafta sem veitir þeim betra aðgengi að fjármögnun og ákveðna vernd frá utanaðkomandi atburðum á fjármálamörkuðum. Endurskipulagning á eignasöfnum þeirra hefur gert það að verkum að reksturinn lítur ágætlega út í samanburði við aðra banka. Arðsemi þeirra og eiginfjárhlutföll eru nokkuð góð í samanburði við erlenda banka. Á sama tíma er vaxtamunur meiri hér á landi en annars staðar og kostnaður hærri miðað við eignastærð bankanna.

Í síðasta blaði Viðskiptablaðsins má sjá ítarlega úttekt á íslensku bönkunum í samanburði við erlenda banka.

Arðsemi bankanna

Líta má á nokkra þætti þegar vega á og meta arðsemi fjármálastofnana. Algengur mælikvarði á slíkt er arðsemi eigin fjár. Í skýrslu Bankasýslu ríkisins er litið til arðsemi af reglulegum rekstri og af kjarnarekstri bankanna á árinu 2011. Þar koma bankarnir nokkuð vel út. Hvað arðsemi af reglulegum rekstri varðar er Landsbankinn lægstur íslensku bankanna með 8,8% arðsemi en Íslandsbanki hæstur með 11%.

Arðsemi eigin fjár íslensku bankanna miðað við erlenda banka gefur til kynna að rekstur hinna íslensku líti ágætlega út. Arðsemi af reglulegum rekstri var 8,8% hjá Landsbankanum, 10,8% hjá Arion banka og 11% hjá Íslandsbanka samkvæmt
tilkynningum frá bönkunum þegar uppgjörin voru birt. Erlendir bankar sem bankasýslan miðar við dreifast bæði fyrir ofan og neðan íslensku bankana. Til að mynda var arðsemi af reglulegum rekstri yfir 25% hjá írska bankanum KBC og rúmlega 15% hjá hollenska bankanum ING. Bankar á borð við Bank of Ireland, RBS og Allied Irish eru svo með lægra arðsemishlutfall en þeir íslensku.

Það er fleira sem áhugavert er að skoða en til að mynda ollu afskriftir Íslandsbanka á viðskiptavild og aðrir óreglulegir rekstrarliðir því að arðsemi eigin fjár var einungis um 1,5% á árinu. Sé tekið tillit til allra liða sem hafa áhrif á arðsemi eigin fjár, en ekki einungis reglulegan rekstur, þá lækkar hlutfallið hjá Íslandsbanka því að umtalsverðu leyti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.