Arðsemi í ferðaþjónustu hefur aukist á síðustu 14 árum samfara auknum fjölda ferðamanna og minni árstíðarsveiflu í komum þeirra hingað til lands. Þá hefur gengisfall krónunnar aukið mjög kaupmátt erlendra ferðamanna hér.

Hagfræðideild Landsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni í dag. Þar kemur m.a. fram að arðsemi í greininni í heild nam 3,9% að meðaltali á árunum 2000-2008. Arðsemin mældist hins vegar 6,9% á árunum 2009-2012. Árið 2009 var arðsemin reyndar einungis 0,2% en það ár var fremur sérstakt ár vegna fjármálakreppunnar, að sögn hagfræðideildarinnar. Sé horft framhjá því ári var arðsemin að meðaltali 9,1% eftir gengisfall krónunnar.