*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 10. janúar 2018 15:03

Arðsemi í sjávarútvegi helmingast

Veiðgjöld íþyngjandi meðan hækkandi gengi krónunnar étur upp hagnað sjávarútvegsfyrirtækja að mati háskólaprófessors.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Veiðigjöld eru orðin næst stærsti einstaki kostnaðarliður sjávarútvegsfyrirtækja, næst á eftir launakostnaði, og er áætlað að gjaldið að viðbættum tekjuskatti muni nema um 60% af hagnaði greinarinnar í ár að því er Fréttablaðið greinir frá.

Segir Ásgeir Jónsson dósent í hagfræði það ofmetið í umræðunni hvað ríkið geti sótt mikið fjármagn með því að skattlegja sjávarútveginn. Arðsemi eigna í sjávarútvegi hafi dregist mikið saman frá árinu 2012 þegar var hvað mest eða 25% og segir hann hækkandi gengi krónunnar vera á góðri leið með að „éta upp“ hagnað þeirra.

Árið 2016 var arðsemin til að mynda komin niður í 13%, sem er svipuð arðsemi og í heild- og smásölu ásamt ferðaþjónustu, en í þessum greinum er hún á bilinu 10 til 13%.

Öfugsnúin umræða

„Umræðan er oft á tíðum öfugsnúin. Í stað þess að ræða hvernig við getum nýtt skattpeningana betur snýst umræðan iðulega um að láta sjávarútveginn fjármagna heilbrigðiskerfið, menntakerfið og allt sem okkur dettur í hug með hærra auðlindagjaldi. Það er bara ekki hægt. Sem betur fer er íslenskur sjávarút vegur vel rekin grein sem getur greitt milljarða til ríkisins en fjárhæðin er ekki af þeirri stærðargráðu að það skipti sköpum fyrir ríkissjóð,“ segir Ásgeir. 

„Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef sjávarútvegurinn á að borga hátt auðlindagjald verður hann að fá að vera í takt við tímann og standast erlenda samkeppni. Það er ekki samtímis mögulegt að hindra hagræðingu með því að þvinga upp á atvinnugreinina einhverjum pólitískum markmiðum. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í greininni undanfarna áratugi. Hagkvæmari fyrirtæki hafa keypt út þau lakari og samhliða hafa fyrirtækin stækkað en jafnframt hefur litlum og sérhæfðum fyrirtækjum fjölgað. Við hljótum að vilja leyfa greininni að þróast áfram í friði.“

Jónas Gestur Jónasson, yfirmaður sjávarútvegshóps Deloitte segir að töluverð samþjöppun hafi orðið í greininni. „Þau fyrirtæki sem hafa verið fjárhagslega veikari virðast hafa verið að heltast úr lestinni undanfarin þrjú til fjögur ár og þau verið keypt eða tekin yfir af stærri fyrirtækjum.“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is