Á stuttum tíma hefur Íslandsbanki tekið miklum breytingum. Stutt er síðan hann varð að fullu í eigu ríkisins auk þess sem nýjustu afkomutölur bankans gefa til kynna að hann sé nú að langmestu farinn að reiða sig á grunnrekstur sinn. Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka, segir bankann vel búinn undir þá stöðu. Arðsemi hans sé samkvæmt áætlun og þótt hann sé í ríkiseigu hefur það ekki teljandi áhrif á reksturinn en Jón Guðni segist viss um að það ríki áhugi á meðal fjárfesta fyrir því að kaupa Íslandsbanka.

Aukið regluverk leggur þrýsting á kostnaðarhlið bankans en auknar tækniframfarir eru til þess fallnar að koma því til mótvægis að mati Jóns Guðna. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hagnaðist bankinn um 3,5 milljarða króna samanborið við 5,4 milljarða á sama tíma og í fyrra. Ljóst er á árshlutareikningnum að einskiptisliðir eru farnir að hafa minna vægi í rekstrinum en það gildir einnig um Landsbankann og Arion banka. Að sögn Jóns Guðna hefur bankinn alltaf verið með skilgreint markmið um undirliggjandi rekstur.

„Við höfum að stærstum hluta horft framhjá einskiptisliðunum og einbeitum okkur í öllum markmiðum okkar að ná arðsemi í undirliggjandi rekstri,“ segir hann.

„Það sem við höfum líka gert og gengið lengra með en flestir aðrir í því er að þegar við kynnum uppgjör okkar út á við þá drögum við alltaf sérstaklega fram undirliggjandi rekstur. Fyrir markaðsaðila held ég að breytingin verði því töluvert minni heldur en ella.“

Í takt við áætlanir

Arðsemi bankans af eigin fé nam 6,9% samanborið við 11,8% á sama tíma í fyrra. Arðsemi bankans af reglulegri starfsemi nam 10,1% samanborið við 15% á sama tíma og í fyrra.

„Það er algjörlega ásættanlegt og í takti við okkar áætlanir,“ segir Jón Guðni.

„Vaxtatekjur nettó eru að aukast mikið, það er aðallega vegna aukins eigin fjár og hærra vaxtaumhverfis. Vaxtamargínan á útlán er heldur að minnka, sérstaklega vegna mikillar samkeppni á útlánamarkaði. Þóknanatekjur eru að aukast um 8% og við erum mjög ánægð með það. Kostnaður er að aukast um 12% en það eru helstu áskoranirnar okkar. Þar erum við að taka inn tveggja ára kjarasamningshækkanir. Hækkanir síðasta árs komu ekki inn fyrr en á síð­ ari hluta ársins. Þessi 12% á fyrsta fjórð­ungi verður því ekki sama niðurstað­an fyrir allt árið heldur verður það nær sex prósentum. Við sjáum á hreyfingu á virði félaga í kauphöll að kjarasamningshækkanirnar eru að hafa áhrif á uppgjör mjög margra félaga.“