*

þriðjudagur, 20. október 2020
Innlent 29. júlí 2020 18:42

Arðsemi Íslandsbanka 2,8%

Íslandsbanki hagnaðist um 1,2 milljarð króna á öðrum fjórðungi ársins en tap er á rekstri félagsins á fyrri helmingi ársins.

Alexander Giess
Birna Einarsdóttir er bankastjóri Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi nam 1,2 milljörðum króna og dróst saman um tæplega 43% milli ára. Arðsemi eiginfjár er 2,8% á ársgrundvelli miðað við annan ársfjórðung en tap er á rekstri félagsins á fyrri helmingi ársins sem nemur 131 milljón. 

Heildareignir Íslandsbanka hafa aukist um 8,6% það sem af er ári og nema nú 1.303 milljörðum króna. Þar af eru ríflega 933 milljarðar lán til viðskiptavina þar sem 356 milljarðar eru lán til einstaklinga. Lánasafn bankans var fært niður um 2,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi og nemur niðurfærslan því 5,9 milljörðum króna á fyrri hluta ársins.

Vaxtamunur bankans nam 2,6% á fjórðungnum en 2,8% á sama tímabili í fyrra. Kostnaðarhlutfall Íslandsbanka lækkaði milli fjórðunga, úr 60,1% í 57,5% en hækkaði örlítið milli ára. Eiginfjárhlutfall bankans hækkaði um tæplega prósentustig milli ára og stendur í 22,2%.

Sjá einnig: Hagnaður Arion tvöfaldast

Hreinar vaxtatekjur félagsins námu ríflega 8,2 milljörðum króna og dróst saman um 2% milli ára. Rekstrarhagnaður þess nam 10,6 milljörðum og hækkuðu niðurfærslur félagsins milli ára úr 902 milljónum í ríflega 2,4 milljarða.

„Við höfum áfram unnið að lausnum með okkar viðskiptavinum og má þar til dæmis nefna að umsóknir um stuðningslán nema nú rúmlega 1,5 milljarði króna. Allmargar umsóknir hafa þegar verið afgreiddar og fleiri bíða úrvinnslu. Góður gangur var í nýjum útlánum á tímabilinu.

Töluverður vöxtur var í húsnæðislánum og margir viðskiptavinir nýttu sér bílafjármögnun Ergo á tímabilinu, sem átti sitt stærsta tímabil um árabil. Grænum lánum, sem kynnt voru í byrjun sumars, var sömuleiðis vel tekið. Innlán frá viðskiptavinum jukust mikið á tímabilinu eða um 10,2%. Lausa- og eiginfjárhlutföll eru áfram sterk og er bankinn því í einkar góðri stöðu til að vinna áfram með sínum viðskiptavinum,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur, forstjóra Íslandsbanka.