Hagnaður Íslandsbanka nam 5,2 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi sem er aukning um 43,5% frá sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli jókst úr 7,7 í 10,2% á milli tímabilanna. Afkoma bankans var yfir spám sex greiningaraðila sem spáðu að meðaltali 4,8 milljarða hagnaði og 9,5% arðsemi eigin fjár, en hins vegar var talverður á bjartsýnustu og svartsýnustu spánni.

„Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri og jákvæð virðisbreyting útlána,“ segir í afkomutilkynningu bankans.

Hreinar vaxtatekjur jukust um 12,4% á milli ára og námu 9,2 milljörðum á fyrsta fjórðungi. Hækkunin á milli ára er sögð skýrast af stækkun lánasafns bankans og hærra vaxtaumhverfis. Vaxtamunur jókst úr 2,4% í 2,6% á milli ára. Hreinar þóknanatekjur jukust um 7,1% á milli ára og námu samtals 3,1 milljarði.

Stjórnunarkostnaður nam 5,8 milljörðum og lækkar um 0,3% frá fyrra ári sem bankinn rekur til áframhaldandi hagræðingar í rekstri. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 47,6% úr 51,3% „aðallega vegna sterkrar tekjumyndunar og hagkvæmari reksturs“.

Virðisrýrnun var jákvæð um 483 milljónir sem bankinn rekur til batnandi útlits í ferðaþjónustu. Á sama tíma í fyrra var virðisrýrnun neikvæð um 518 milljónir.

Útlán til viðskiptavina jukust um 21,6 milljarða á fjórðungnum, eða um 2,0%, aðallega vegna húsnæðislána. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 17,4 milljarða á fjórðungnum en „aukninguna má að mestu rekja til sölu ríkisins á bankanum“.

Eigið fé bankans nam 197,2 milljörðum í lok mars og eiginfjárhlutfall bankans var 22,5%

Taka umræðu um þátttöku starfsmanna alvarlega

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, minnist í tilkynningunni á útboð Bankasýslunnar á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars.

Sjá einnig: Seldu í samkeppni við sjálfa sig

„Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu um söluferlið og það fyrirkomulag sem notast var við. Meðal annars hefur komið fram gagnrýni á þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu. Því tökum við alvarlega og stendur vinna yfir við breytingar á reglum bankans varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna,“ segir Birna.