Grunnarðsemi stóru viðskiptabankanna sem hlutfall af eigin fé þeirra er í lakara lagi í norrænum samanburði. Rekstrarkostnaður þeirra er líka hærri, reiknaður sem hlutfall af grunntekjum. Hagnaður bankanna nam 64 milljörðum króna samanlagt á síðasta ári og var reiknuð arðsemi þeirra 12%. Hjá hópi 17 meðalstórra norrænna banka var meðalarðsemi eiginfjár miðað við grunnrekstur 7,1% til 9,6% árin 2010 til 2013. Hjá íslensku bönkunum var arðsemin hins vegar 3,7% til 6,7% á sama tímabili.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag. Umfjöllunin byggir á upplýsingum úr riti Seðlabankans, fjármálastöðugleiki. Þar segir að reiknaður vaxtamunur bankanna stóru var 3% í fyrra og lækkaði á milli ára. Það skýrist m.a. af lægri verðbólgu og auknu hlutfalli íbúðarlána í lánasafni bankanna.

Seðlabankinn bendir á að hækkun bankaskattsins í fyrra muni til lengri tíma litið valda breytingum á út- og innlánsvöxtum. Þar sem meiri samkeppni ríkir á útlánamarkaði en markaði innlána sé líklegra að skattahækkanirnar hafi meiri áhrif á innlánsvexti.