Besta trygging sem skattgreiðendur hafa fyrir því að fjármunum þeirra verði ekki sóað áfram í pólitíska ævintýramennsku í Landsvirkjun er að virkjanir verði héðan í frá reistar án ríkisábyrgðar og með eignarhlut fleiri en opinberra aðila eða hálfopinberra aðila eins og lífeyrissjóða. Það væri verðugt verkefni að hleypa lífi í fjárfestingu hér á landi með því að opna fyrir útboð í sæstreng til Bretlands.

Er þetta meðal þess sem kemur fram í pistli Óðins , sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 11. júlí síðastliðinn.

Þar er m.a. fjallað um fjárhagslega stöðu Landsvirkjunar og telur pistlahöfundur að óskynsamlegt sé fyrir Landsvirkjun að fjárfesta frekar í orkusölu til áliðnaðar á næstu árum. Arðsemi af orkusölu til stóriðju hafi verið allsendis óviðunandi undanfarna áratugi og Landsvirkjun sé alltof skuldsett til að fara í stórar fjárfestingar.

Vísar hann m.a. til skýrslu Ásgeirs Jónssonar og Sigurðar Jóhannessonar, sem kom út í desember í fyrra. „Niðurstaða þeirrar skýrslu er að arðsemi raforkusölunnar sé ekki nema liðlega 5% fyrir skatta og verðbólgu. Það þýðir að fjárfestingin stendur ekki undir fórnarkostnaði þess fjármagns sem bundið er í henni. Þjóðhagslegur ábati hefði verið meiri ef ríkið hefði ekki sogað þetta fé til sín og það hefði verið til reiðu í aðra atvinnuvegafjárfestingu. Í skýrslunni birta þeir mat á arðsemi Landsvirkjunar og annarri atvinnuvegafjárfestingu í landinu og í ljós kemur að hún er töluvert lægri.“

Jafnvel þótt arðsemi Landsvirkjunar væri skárri þá býður fjárhagsstaða fyrirtækisins ekki upp á frekari fjárfestingar að mati pistlahöfundar. „Landsvirkjun sker sig algerlega úr samanburðarfyrirtækjunum hvað varðar nettó vaxtaberandi skuldir sem hlutfall af EBITDA sem ætti að gefa mynd af því hversu vel fyrirtækið getur þjónustað skuldir sínar.“

Lesa má pistil Óðins í heild sinni hér .