Talsverður munur er á arðsemishlutföllum bankanna ef hagnaður fyrir skatta er eini mælikvarðinn á arðsemi bankanna enda talan mishá milli banka samkvæmt uppgjörum þeirra fyrir síðasta árshelming.

Arðsemishlutfallið sem gjarnan hefur verið nefnt í því samhengi er hagnaður yfir eigin fé en Landsbankinn og Íslandsbanki eru þar á svipuðu róli, með um 14% arðsemi eiginfjár. Arion banki virðist heltast þar úr lestinni með um 9% arðsemishlutfall.

Ef skoða á arðsemi úr reglulegum rekstri bankanna er þó eðlilegra að bera saman arðsemi þeirra á grundvelli hagnaðar sem inniheldur ekki uppfærslu eða niðurfærslu á virði lánasafna sem skekkir talsvert myndina. Íslandsbanki færði virði útlánasafns síns nettó upp um tæpa átta milljarða króna á síðasta árshelmingi, samanborið við tvo milljarða á sama tíma í fyrra. Þá er nettó virðisbreyting á útlánasafni Landsbankans svipuð og hjá Íslandsbanka, eða upp um tæpa 8 milljarða króna, en útlánasafnið var skrifað niður um 3,5 milljarða á fyrri árshelmingi 2012. Þessi 8 milljarða jákvæða virðisbreyting hjá hvorum banka fyrir sig er jafngild nærri 50% af hagnaði þeirra á öllu tímabilinu.

Arionbanki hreyfði hins vegar lítið við nettó virði síns útlánasafns á þessum árshelmingi og er uppgefið arðsemishlutfall því mun nærra lagi hjá Arion en hjá hinum bönkunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .