Fjöldi ferðamanna er afgangsstærð. Mikilvægar er að reka góða og arðsama ferðaþjónustu til lengri tíma en að fjölga ferðamönnum hratt.

Þetta sagði Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor, í erindi sínu á Aðalfundi Samtaka atvinnulífsins (SA) sem nú stendur yfir.

Ásberg fór yfir sögu Nordic Visitor sem stofnað var sem upplýsingamiðstöð árið 2002 en væri í dag fyrirferðamikill ferðaþjónustuaðili sem sérhæfði sig í sérferðum hér á landi.

Hann sagði mikilvægt að huga vel að uppbyggingu ferðaþjónustunnar hér á landi og benti á að það þyrfti einnig að gera í góðri sátt við Íslendinga og umhverfið. Þannig sagði Ásberg að Íslendingar nýttu háannatíma ferðaþjónustunnar til að ferðast sjálfir um landið og með áframhaldandi fjölgun ferðamanna væri ekki hægt að horfa framhjá því að upp geta komið árekstrar þegar álagið á landið og fólkið í landinu væri orðið of mikið. Þannig lagði Ásberg í erindi sínu mikla áherslu á að hugað væri að uppbyggingu fjölfarinna ferðamannastaða.