Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær mun hópur fjárfesta undir forystu Títan fjárfestingarfélags og Samherja leggja MP Banka til 5 milljarða króna í formi nýs hlutafjár og taka í kjölfarið yfir alla innlenda starfsemi bankans sem og starfsemi hans í Litháen. Önnur erlend starfsemi bankans, þ.m.t. sú í Úkraínu, verður áfram í eigu núverandi hluthafa.

„Verkefninu miðar vel áfram og er á áætlun,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri Títan fjárfestingarfélags. Hann segir áreiðanleikakönnun lokið og nú sé unnið að því að klára hluthafahópinn sem tekur yfir rekstur MP Banka. „Við erum mjög sátt við þá niðurstöðu sem nú liggur á borðinu og vinnuna sem lögð hefur verið í ferlið til að takmarka alla óvissu. Það tekur tíma að klára alla skjalagerð í kringum þessi kaup og eðlilegt að það taki einhverjar vikur í viðbót,“ segir Skúli.

Helgi Magnússon, formaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, staðfestir að stjórn sjóðsins hafi samþykkt að kaupa 10% hlut í endurskipulögðum MP Banka fyrir 500 milljónir króna. „Miðað við þær hugmyndir og áætlanir sem okkur hafa verið kynntar, teljum við að hér sé um arðbæra fjárfestingu að ræða fyrir lífeyrissjóðinn og við væntum þess að bankinn geti orðið mikilvægt afl og góður kostur á fjármálamarkaði, jafnt fyrir fólk og fyrirtæki. Þá teljum við að sá hópur hluthafa sem kemur nú að bankanum sé góð blanda einkafjárfesta, lífeyrissjóða, vátryggingafélaga og annarra,“ segir Helgi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.