„Við höfum gætt afar mikilsaðhalds í rekstri alveg frá upphafi. Hér eru ekki margir starfsmenn á skrifstofu en reksturinn gengur ágætlega engu að síður,“ segir Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Mýflugs, um helstu ástæðurnar fyrir velgengni fyrirtækisins, en það situr í 318. sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki.

Mýflug hefur um þriggja áratuga skeið verið í fremstu röð flugrekstraraðila á Íslandi. Í gegnum tíðina hefur fyrirtækið sinnt margs konar flugþjónustu en í sérhæfir sig nú í leigu- og sjúkraflugi. Einnig sinnir það útsýnisflugi frá Mývatni og Akureyri og sinnti einnig flugprófunum á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum í samstarfi við Isavia um nokkurra ára skeið.

„Þess má geta að Mýflug fagnar 30 ára afmæli á þessu ári og er enn rekið á sömu kennitölu. Fyrstu tuttugu árin sinntum við að mestu leyti leigu- og útsýnisflugi en um áramótin 2005-2006 fengum við eftir útboð sjúkraflug á vegum ríkisins. Við það jókst starfsemin töluvert sem skilaði sér í talsvert meiri stöðugleika,“ bætir hann við. Aukinn ferðamannastraumur til landsins hafi enn fremur jákvæð áhrif á reksturinn.

Nánar í sérblaði Viðskiptablaðsins um framúrskarandi fyrirtæki sem unnið var í samstarfi Creditinfo. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .