Yfirlýsing Íslandspósts er hér birt orðrétt:

Árétting frá Íslandspósti vegna greinar og leiðara í Viðskiptablaðinu

Þann 6. september sl. birti Viðskiptablaðið fréttaskýringu sem nefndist Titringur á póstmarkaði og leiðarann Hin hæfilega álagning þar sem starfsemi Íslandspósts er meginumfjöllunarefnið. Í bæði greininni og leiðaranum er að finna fullyrðingar sem fyrirtækið gerir athugasemdir við og vill gjarnan leiðrétta.

Í upphafi þessa árs fækkaði Íslandspóstur dreifingardögum bréfapósts á höfuðborgarsvæðinu um helming með því að bera nú út póst annan hvern virkan dag. Var það gert til að bregðast við stöðugri fækkun bréfa og þar af leiðandi verulegri hækkun einingarkostnaðar í bréfadreifingu. Í grein Viðskiptablaðsins kemur réttilega fram að það vanti verulega upp á að bréfadreifing standi undir sér. Aftur á móti segir einnig í greininni að Íslandspóstur hafi ætlað að halda eftir því hagræði sem skapaðist við að fækka dreifingardögum en Póst- og fjarskiptastofnun ( PFS ) hafi stöðvað þær fyrirætlanir. Þetta er ekki rétt, hvorki að Póst- og fjarskiptastofnun hafi stöðvað meintar fyrirætlanir Íslandspósts né að fyrirtækið hafi ætlað að halda eftir hagræðinu. Hagræðinu er skilað með minni hækkun verðskrár en ellegar hefði þurft. PFS fór fram á að Íslandspóstur myndi endurskoða verðskrá sína, nokkuð sem stóð alltaf til af hálfu fyrirtækisins þar sem ljóst var fyrir allnokkru að verðskráin þyrfti að hækka en ekki lækka til að standa undir þjónustunni. Hefði dreifingardögum ekki verið fækkað þá liggur fyrir að hækka hefði þurft verð enn meira á næstunni.

Notendur njóta hagræðis af fækkun dreifingardaga bréfapósts

Í blaðinu er rætt við Ólaf Stephensen , framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, sem segir að töf á endurskoðun gjaldskrár Íslandspósts hafi orðið til þess að notendur þjónustunnar borgi of mikið. Þetta er einnig rangt. Í raun er það svo að töfin sem orðið hefur á endurskoðun gjaldskrárinnar þýðir að notendur þjónustunnar borga minna í dag en þeir hefðu gert ella. Það er vegna þess að verð mun hækka á næstunni, samþykki PFS drög Íslandspósts að nýrri verðskrá. Ólafur segir að frá því að fækkun dreifingardaga tók gildi, sem var í upphafi árs, hafi hagræðið skilað sér til Íslandspósts. Það er vissulega rétt, enda er tilgangurinn með aðgerðunum einmitt sá og það leiðir til þess að hækkunarþörfin nú er minni en ella.

Minni eftirspurn eftir bréfapósti leiðir af sér hundruð milljóna tekjutap sem þarf að bæta með einhverjum hætti. Því var lagt upp með blandaða leið hækkana og aðlögunar þjónustunnar að minnkandi eftirspurn eftir einkaréttarbréfum. Ekki er um annað að ræða þar sem lögum samkvæmt þarf Íslandspóstur að halda uppi dreifikerfi, sem stækkar stöðugt í takti við fjölgun íbúða og fyrirtækja, þrátt fyrir mikla fækkun bréfa.

Þá segir Ólafur að á meðan Íslandspóstur haldi uppi verðlagningu á þjónustu sem sé í einkarétti þá sé gjaldskrá fyrirtækisins fyrir samkeppnisrekstur lág og hafi lítið breyst. Það er einnig rangt. Allur rekstur Íslandspósts hefur fundið fyrir kostnaðarhækkun, líkt og önnur fyrirtæki, og þurft að bregðast við því. Töluverðar hækkanir hafa verið á ýmissi þjónustu í samkeppnisrekstri og ný þjónustugjöld tekin upp, þar sem þeir bera kostnaðinn sem nota þjónustuna. Það stenst því ekki sem Ólafur heldur fram í samtali við Viðskiptablaðið að gjaldtaka hafi verið óbreytt árum saman.

Í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins segir ennfremur að á árunum 2016-2017 hafi afkoma Íslandspósts af einkaréttarvarinni þjónustu numið alls 868 milljónum króna og á sama tímabili hafi fyrirtækið tapað 1,5 milljörðum króna á samkeppnisrekstri sínum. Sagt er að keppinautar Íslandspósts hafi kvartað til eftirlitsstofnana vegna grunsemda um að hagnaður úr einkaréttarstarfseminni hafi verið nýttur til að greiða niður tap af samkeppnisstarfseminni. Þarna gætir grundvallarmisskilnings. Gert er ráð fyrir að búið sé að færa tapið vegna samkeppnisrekstrarins inn í uppgjörið fyrir einkaréttarvörðu þjónustuna. Það er alls ekki svo. Þær 868 milljónir króna sem eru afgangs vegna einkaréttarins eru notaðar til að greiða niður alþjónustubyrðina, sem er innifalin í 1.500 milljónunum.

Íslandspóstur hefur upplýst um versnandi stöðu bréfadreifingar

Af hálfu Íslandspósts hefur verið leitast við að stíga fram og útskýra stöðuna. Sér í lagi áhrif þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á rekstrarumhverfi póstþjónustunnar. Íslandspóstur er að fullu í eigu ríkisins og þar með almennings og því er eðlilegt að sem mestar upplýsingar séu aðgengilegar um stöðu og hlutverk fyrirtækisins. Upplýsingum um versnandi afkomu af bréfapósti og áskoranir í öðrum þáttum rekstrarins hefur verið miðlað í viðtölum við blaðamenn, í blaðagreinum, í greinargerðum í ársskýrslum Íslandspósts sem og í svörum við athugasemdum hagsmunaaðila. Að auki hafa sjónarmið Íslandspósts verið reifuð í fjölmörgum málum sem Póst- og fjarskiptastofnum hefur haft til meðferðar. Það er því ekki rétt sem Ólafur segir að það sé „mikið hagsmunamál stjórnenda Íslandspósts að segja sem minnst“ hvað varðar afkomu fyrirtækisins.

Ólafur segir ennfremur að leitað hafi verið til margra aðila á vegum hins opinbera „til þess að fá staðfest með óyggjandi hætti að rekstur fyrirtækisins sé í samræmi við lög og að það sé ekki verið að nota tekjur úr einkaréttarhlutanum til að niðurgreiða samkeppnishluta rekstrarins.“ Hann segir að ekkert hafi komið úr úr þeim umleitunum. Vert er að benda á í þessu samhengi að Samkeppniseftirlitið hefur tekið sérstaka ákvörðun vegna sáttar í kjölfar kærumála sem stofnuninni höfðu borist á hendur Íslandspósti. Þeim málum var öllum lokið án þess að til sakfellingar hafi komið á hendur Íslandspósti.

Með sátt milli Íslandspósts og Samkeppniseftirlitsins var af hálfu fyrirtækisins leitast við að skerpa á frekari upplýsingagjöf í von um að það mætti verða til þess að auka skýrleika í flóknum uppgjörsmálum og skerpa skilning á því hvort um víxlniðurgreiðslu eða mögulega undirverðlagningu kunni að vera að ræða. Ákvörðunarorð Samkeppniseftirlitsins í þessum málum eru birt í 119 blaðsíðna samantekt, þ.e. ákvörðun nr.8/2017. Það er áhugaverður lestur fyrir þá sem vilja kynna sér rekstrarumhverfi almannaþjónustufyrirtækis í póstrekstri, sem samkvæmt sérstöku rekstrarleyfi er bundið alþjónustuskyldu lögum samkvæmt. Ætla verður að sú niðurstaða sé bæði hlutlæg og marktæk.

Athugasemd ritstjóra Viðskiptablaðsins: Viðskiptablaðið stendur við frétt sína og leiðara sem birtist í blaðinu 6. september.