Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells, hefur farið þess á leit við Viðskiptablaðið að birta eftirfarandi áréttingu vegna fréttar sem birtist á vb.is í gær.

„Vegna fréttar á vef og í áramótablaði Viðskiptablaðsins þar sem sagt er að Vífilfell sé sátt við núverandi fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi og „kæri sig ekki um“ frumvarp Vilhjálms Árnasonar alþingismanns til breytinga á áfengislögum, er rétt að árétta eftirfarandi.

Vífilfell er fylgjandi frjálsri samkeppni, hvort sem er á sviði áfengissölu eða öðrum sviðum. Afstaða Vífilfells byggist fyrst og fremst á þeim göllum sem eru á frumvarpinu og dregnir eru fram í skriflegri umsögn Félags atvinnurekenda. Vonandi verða þær ábendingar sem fram koma í umsögnum til Alþingis nýttar til að bæta frumvarpið svo stíga megi tímabær skref í frjálsræðisátt.

Virðingarfyllst,

Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells.“