Í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær var greint frá því að Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi 101 Hótels, hefði hug á að kaupa hluta af fasteigninni við Hverfisgötu 6. Í fréttinni var ekkert sem gaf til kynna að Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, ætti hlut að máli.

Ástæða þess að blaðamaður hafði fyrst samband við Jón Ásgeir Jóhannesson er einföld. Blaðinu hafði borist ábending þess efnis að Jón Ásgeir væri að kaupa eign þar sem ríkissaksóknari væri til húsa. Jafnframt fylgdi ábendingunni að saksóknari vildi ekki vera leiguliði Jóns Ásgeirs og væri þegar hafin vinna hjá embættinu að finna nýjan samastað.

Því var haft samband við Jón í tölvupósti. Í svari sínu neitaði Jón því að hann hyggði á slík kaup. Hann svaraði svo ekki pósti þar sem hann var spurður að því hvort félög eða einstaklingar honum tengdir vildu kaupa fasteignina við Hverfisgötu 6.

Blaðamaður fékk svo þær upplýsingar sem hann þurfti með öðrum leiðum og komst því að því að Ingibjörg væri sú sem áhuga hefði á eigninni, en ekki eiginmaður hennar, enda snerist fréttin um það. Reynt var að ná í Ingibjörgu við vinnslu fréttarinnar, en það tókst ekki.

Það er því fráleitt að gefa í skyn, eins og Ingibjörg gerir, að Viðskiptablaðið gangi út frá því að hún sé „ viljalaust verkfæri “ eiginmanns síns.

Bjarni Ólafsson,
ritstj. Viðskiptablaðsins.